137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:13]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þekki hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson að góðu einu og ætla þess vegna að láta eftir honum að koma í pontu og taka til andsvara.

Við erum ósammála um að valdhroka hafi verið beitt á fundum viðskiptanefndar og við getum verið ósammála um það því að ég held að við höfum ekki sýnt það í störfum okkar, meiri hlutinn, heldur reynt að finna málum okkar sameiginlegan farveg. Það hefur hins vegar ekki tekist, við erum ósammála um pólitík eða nálgun og verður svo að vera.

Ég hef áhyggjur af því, ef við stofnum ekki Bankasýslu ríkisins, að tengsl atvinnulífsins og stjórnmálanna verði of náin og þess vegna mæli ég fyrir frumvarpi um Bankasýslu.

Á vettvangi viðskiptanefndar hafa fulltrúar bankastofnana komið og þeir hafa fullyrt að þeir hafi ekki orðið fyrir neinum pólitíska þrýstingi. Ég hef orð þeirra fyrir því að eins og sakir standa verði þeir ekki fyrir neinum þrýstingi um ákvarðanatöku eða slíkt og er það vel. En hvað ber framtíðin í skauti sér ef við ætlum að hafa þetta í ráðuneytinu með of nánum tengslum? Einhver ber ábyrgð og núna er það fjármálaráðherra beint sem ber ábyrgð en hefur enga stofnun eða vettvang milli sín og þeirra ákvarðana sem teknar eru í bankanum. Þess vegna mælum við fyrir frumvarpi um Bankasýslu.

Ég hef hins vegar ekki heyrt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins koma með neinar hugmyndir um hvaða valkostur er við stofnun Bankasýslunnar. Vill hv. þingmaður hafa málin inni í ráðuneytinu? Ég get ekki skilið orð hans öðruvísi.