137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara biðja hv. þingmann að vera ekki með neina greiðasemi við mig. Við tökum þessa umræðu hér vegna þess að það er mikilvægt að hún fari fram. Hún er líka gluggi fyrir almenning til að fylgjast með því sem gerist hér og það er mjög mikilvægt að hann fái að vita um þau sjónarmið sem uppi eru og svör við þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram.

Hér hafa menn hvað eftir annað komið og sagt að það þurfi að taka þetta af skrifborðshorni ráðherrans. Það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að það sé þá á skrifborðshorni ráðherrans, það er bara ekki hægt að skilja það neitt öðruvísi. Við höfum áður haft ríkisbanka og raunar eru ekkert rosalega mörg ár síðan bankakerfið var nær allt saman í eigu ríkisins. Um tíma var það einungis Verslunarbankinn, lítill banki, sem var ekki í eigu ríkisins og kannski Samvinnubankinn, annars voru þetta allt saman ríkisbankar. (Gripið fram í: Alþýðubankinn.)

Almenna reglan er sú að settar eru stjórnir yfir fyrirtæki sem bera ábyrgð, það eru þær sem eiga að bera ábyrgð. Almennt hefur það ekki verið svo og þegar t.d. Póstur og sími var í eigu ríkisins var stjórn yfir því fyrirtæki sem bar ábyrgð — sá um stefnumótun og bar ábyrgð.

Það sem hefur vantað er að klára uppgjör á bönkunum, samninga við kröfuhafa. Það er algjörlega ný hugsun að það þurfi sérstaka ríkisstofnun til þess að halda utan um eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum eða öðrum fyrirtækjum. Ef menn telja að það sé nauðsynlegt í fjármálafyrirtækjum, og ég spurði að því, er þá nauðsynlegt að setja það fyrir aðra geira (Forseti hringir.) eins og t.d. orkugeirann, því að þessi geiri hlýtur þá að vera jafnmikið inni á borði ráðherra eins og fjármálageirinn?