137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:18]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var svona helst til „billegt“ hjá hv. þingmanni og ekki honum til sóma. En ef hv. þingmann langar í lax er það eitthvað sem á ekki erindi í þingræðu, en látum það liggja á milli hluta.

Ég á enn þá eftir að fá svar við því, ef hv. þingmaður trúir því — og það eru fá orð sem eru jafnofnotuð og „faglegt“ og þeir sem nota það mest „praktísera“ venjulega allt önnur vinnubrögð en fagleg. Hv. þingmaður er að leggja það til að fjármálaráðherra skipi stjórn Bankasýslunnar (Gripið fram í.) þannig að ég skil ekki hvað hv. þingmaður er að skamma mig, það er bara gersamlega fráleitt. Ef menn vilja hafa fjölbreytta skipan t.d. í bankaráð er hægt að gera það með margs konar hætti, það eru alls kyns valnefndir og allt milli himins og jarðar. Við höfum reynslu af því t.d. þegar við ráðum forstöðumenn í heilbrigðiskerfinu, þá (Gripið fram í.) eru sérstakar valnefndir þar (Gripið fram í.) sem fara faglega yfir það.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir er ekki meiri manneskja en svo að hún treystir sér ekki í umræðu hér um þessi mál en gjammar hér fram í, (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það er hægt að fá hljóðdeyfi á viðkomandi hv. þingmann en það er hins vegar erfitt að tala í þessu stutta andsvari þegar hv. þingmaður gjammar allan tímann. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til að biðja um orðið.

Enn á eftir að svara þeirri spurningu sem ég bar fram, og ég treysti því að hv. þm. Magnús Orri Schram geri það, (Forseti hringir.) þ.e. hvort hann ætli að setja sýslu yfir fleiri geira.