137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér finnst það mjög alvarlegt hér við 3. umr. um stofnun Bankasýslu ríkisins að fjölmörgum spurningum sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum lagt hér fram skuli enn vera ósvarað. Það eru nokkrar mínútur eða klukkustundir þangað til Alþingi Íslendinga — ja, eigum við að segja nokkrar klukkustundir að öllu óbreyttu — þangað til þetta frumvarp verður samþykkt sem lög frá Alþingi og við í stjórnarandstöðunni fáum engin svör við mikilvægum spurningum sem við höfum lagt fram í þessari umræðu.

Ég vil spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram, hvar sem hann er nú þessa stundina, því að ekki er hann í salnum, hvort það sé ekki pólitísk skipun að fjármálaráðherra einn skipi alla stjórn Bankasýslu ríkisins. Hvernig er hægt að skilja það öðruvísi en að það sé pólitísk skipun og kannski sérstaklega þegar það er aðeins einn aðili, án þess að nokkur annar komi þar nálægt, sem skipar stjórn Bankasýslu ríkisins? Auðvitað er það pólitísk skipun.

Síðan munu þessir aðilar sem eru væntanlega hallir undir viðkomandi ráðherra skipa önnur ráð. Er það ekki svo? Hefur ekki verið talað um það að mögulega (Gripið fram í.) verði eignarhaldsfélagið sett undir Bankasýslu ríkisins? Ég segi það hér og stend við það að það er verið að setja bullandi pólitík inn í íslenskt fjármálalíf þar sem hið opinbera hefur yfir 90% markaðshlutdeild í dag.

Ég spurði líka formann viðskiptanefndar áðan í ljósi þess að það mun kosta um 400 millj. kr. á fimm árum að reka þetta batterí plús öll önnur opinber bankaráð plús aðrar stjórnir í fjármálafyrirtækjum, hvernig hv. þingmaður sér það fyrir sér að draga saman seglin í yfirstjórn opinberra fjármálafyrirtækja. Ég benti líka á að með því að fækka ráðherrum um tvo má spara allt að 80–100 millj. kr. Ef við setjum þetta í eitthvert samhengi kostar rekstur á Heilsugæslustöðinni í Lágmúla í Reykjavík 155 millj. kr. Reksturinn á Heilbrigðisstofnuninni á Hvammstanga kostar 297 millj. kr. Nú er kallað til forsvarsmanna þessara stofnana að þeir skuli draga saman seglin. Á meðan horfum við upp á ríkisstjórn sem fjölgar ráðherrum um tvö. Það var fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar, að ná fram tveimur aukabitlingum sem kosta 80–100 millj. kr. á ári. Og núna á að auka enn frekar á kostnaðinn sem almenningur mun þurfa að greiða.

Hvar er nú félagshyggjuást Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Við höfum kallað eftir því hér í þessari umræðu hvort ríkisstjórnin hafi raunverulega einhverja stefnu í því að skera niður útgjöld í þessum málaflokkum, fyrst á eigin heimili, síðan í yfirstjórn opinbera fjármálakerfisins. En það er allt í lagi að fyrsta verkið sé það að skera niður 1.200 milljónir til íslenskra námsmanna og 3.800 milljónir til aldraðra og öryrkja. (Gripið fram í: Menn eru sammála um það.) Menn eru sammála um það í stjórnarmeirihlutanum og svo eru menn sammála um að fara í það að auka útgjöldin hér. En þegar við í stjórnarandstöðunni spyrjum einfaldra spurninga, hvort ekki standi til að grípa til einhverra aðhaldsaðgerða á þessu sviði fáum við engin svör.

Ég vil spyrja formann viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, að því: Hver mun bera ábyrgð á störfum eignaumsýslufélagsins, ef það fer einhvern tíma í gang, ef Bankasýsla ríkisins mun skipa stjórnina þar? Hvaða ráðherra mun bera ábyrgð á því ef eitthvað fer úrskeiðis í störfum stjórnar eignarhaldsfélagsins? Það er armlengdin sem menn tala um. Rosalega er það nú flott þegar búið er að fella eignaumsýslufélagið undir opinbera stofnun, eignaumsýslufélag sem mögulega gæti haft gríðarlega stór umsvif á íslenskum markaði og tekið yfir stór hlutafélög í landinu sem eru í greiðsluerfiðleikum. Og hver skyldi svo fá þau síðar? Það skyldu þó ekki vera einhverjir flokksgæðingar? Ónei, það á ekki að gera það þannig.

Þá spyr ég enn og aftur: Af hverju í ósköpunum eiga þá ekki fleiri aðilar en einungis fjármálaráðherrann eini, sanni, að skipa stjórn Bankasýslu ríkisins? Ég hef ekki enn fengið svar við því og ég hef heldur ekki fengið svar við því (Forseti hringir.) hvernig hv. þingmenn stjórnarliðsins ætla að skera niður á þessum stöðum eins og á mörgum öðrum í hinu opinbera kerfi.