137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birki Jóni Jónssyni er nokkur vorkunn, hann hefur ekki fylgst með umræðum í viðskiptanefnd um þetta mál utan eins fundar sem hann sat. (BJJ: Það var langur fundur.) Það var langur fundur og það var farið yfir margt. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni um að það er blóðugt að þurfa að eyða peningum í að taka til eftir partýið, en það er það sem íslenskir skattgreiðendur eru að gera og þurfa að gera hér. Það er nöturlegt að hlusta á þá sem báru ábyrgð á einkavinavæðingu bankanna ásaka okkur hin sem erum hér í tiltektinni um að við séum að eyða peningum. (Gripið fram í.)

Tólf milljarðar króna, ef ég man rétt — var það ekki það sem fékkst fyrir einkavinavæðingu bankanna? Það kom svo í ljós að það var aldrei borgað, (Gripið fram í.) er enn í skuld. Og síðan, hvað kom í kjölfarið á því? Hvað kom í kjölfarið á þessari einkavinavæðingu? Jú, það var Icesave-reikningurinn, 660 milljarðar kr. að frádregnum eignum Landsbankans að viðbættum vöxtum. (Gripið fram í: Já, háum.) Lágum vöxtum miðað við þann samning sem fyrir liggur, hv. þingmaður. (Gripið fram í: Hana nú.)

Svona er það. Það er dýrt að taka til eftir partý, það þarf mikið „skúripúlver“ og mikið vatn og það þarf mikla krafta til þess. Við erum ekkert að kveinka okkur undan því (Gripið fram í: Jú …) en við sitjum ekki endilega endalaust þegjandi undir skömmunum fyrir það að við höfum keyrt þetta land í klessu. Hv. þingmenn, það eru ekki þau stjórnmálaöfl sem bera ábyrgð á ríkisstjórn Íslands í dag sem keyrðu bankakerfið í klessu. (Gripið fram í: Nú?) Það vita þeir hv. þingmenn tveir sem hér sitja í salnum.