137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er verulegt áhyggjuefni þegar við hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson spyrjum hér spurninga nú við 3. umr. um þetta mál, sem að öllu óbreyttu mun þá verða að lögum, að við fáum engin svör frá hv. formanni viðskiptanefndar við efnislegum spurningum um það frumvarp sem við ræðum hér. Það er með ólíkindum að hlusta á andsvar sem þetta þegar hv. þingmaður að ég hélt ætlaði sér upp í þennan ræðustól til þess að taka þátt í efnislegri umræðu um málið og svara þeim spurningum sem við höfum lagt fram, m.a. um það hvernig hv. þingmaður ætlar sér að minnka útgjöld í þessum málaflokki, rétt eins og hv. þingmaður hefur beitt sér fyrir að lækka útgjöld til aldraðra og öryrkja eða bætur almannatrygginga. Og rétt eins og hv. þingmaður hefur beitt sér fyrir því ásamt félögunum í stjórnarmeirihlutanum að lækka framlög til stúdenta við háskóla í landinu um 1.200 milljónir. Það er ósköp eðlilegt að maður spyrji hvernig hv. þingmaður ætlar að bregðast við, en hv. þingmaður kemur hér upp og mærir Icesave-samninginn og skýtur föstum skotum að hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni og félögum hans í Samfylkingunni. (Gripið fram í.) Það eru ekki heitar ástir á milli þessara tveggja flokka, hv. formaður viðskiptanefndar kemur hér upp og gjörsamlega hraunar yfir Samfylkinguna þannig að mann verkjar undan fyrir þeirra hönd.

Það er náttúrlega með eindæmum að fylgjast með því að þessir tveir flokkar, sem eru búnir að vera í meiri hluta nú í þrjá mánuði, eru orðnir eins og gömul hjón sem hafa aldrei átt glaða stund í 50 ára hjónabandi. Það er með ólíkindum að fylgjast með þessu og í raun og veru lofar þetta ekki góðu. Ég hvet hv. formann viðskiptanefndar til að hætta að húðskamma Samfylkinguna úr þessum stól en gera það frekar í bakherbergjum með heiðarlegum hætti og svara þess í stað þeim spurningum sem við höfum beint til hv. þingmanns vegna þess að hér er um lokaumræðu um þetta mál að ræða og (Forseti hringir.) við þurfum að fá svör í þessu stóra máli. (Gripið fram í.)