137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það var ekki mikill munur á ræðu hv. þingmanns eða andsvari Álfheiðar Ingadóttur og því gjammi sem hún er búin að viðhafa í allan dag úr þingsal. Það var hins vegar athyglisvert og jafnframt umhugsunarefni að hlusta á hvað hv. þingmaður sagði. Það hafði ekkert að gera með efni málsins, ekkert. Mér finnst hins vegar rétt að menn íhugi að hér var formaður viðskiptanefndar þingsins að tala. Að vera hv. formaður í viðskiptanefnd, sérstaklega núna, er mjög mikilvægt. Formaður viðskiptanefndar kom og hellti úr skálum reiði sinnar og sagði: Við erum að taka til eftir partýið, og benti síðan á tvo þingmenn og sagði að þeir bæru ábyrgð á þessu. (ÁI: Flokkarnir ...)

Ég vil upplýsa hv. formann viðskiptanefndar, af því að það hefur ugglaust alveg farið fram hjá hv. þingmanni, að hér hefur verið fjármálakreppa í heiminum. Af fimm stærstu fjárfestingarbönkum heimsins eru þrír farnir á hausinn í Bandaríkjunum. Við sjáum stór Evrópuríki, bæði í Vestur-Evrópu og Austur-Evrópu, sem takast nú á við gríðarlegan vanda og allir málsmetandi aðilar sem um þetta fjalla eru sammála um að það þurfi að endurskoða fjármálakerfið og meira að segja hefur verið umræða um að hagfræðin eins og við þekkjum hana í dag sé úrelt, hvorki meira né minna.

Ég vil líka upplýsa hv. þingmann um að Samfylkingin var með viðskiptaráðuneytið sem er bankamálaráðuneytið. Það var t.d. einungis á tíma Samfylkingarinnar sem hollensku reikningarnir voru í Icesave og Samfylkingin meira en nokkur annar flokkur hélt því fram að góðærið sem hér var væri fyrst og fremst EES-samningnum að þakka. Ég vek líka athygli á því varðandi þessa stórgölluðu innstæðutryggingatilskipun sem við innleiddum að VG og Samfylkingin vildu ganga lengra hvað það varðaði en sem betur fer gerði þjóðin það ekki. Sömuleiðis vil ég upplýsa hv. þingmann, talandi um ábyrgð, að það er ekkert sem kom fram hjá Vinstri grænum sem varaði við því sem varð. Reyndar er það þannig að einn valdamesti maður þjóðarinnar, formaður BSRB, hæstv. heilbrigðisráðherra, var stjórnarformaður í stærsta lífeyrissjóði landsins. Sá lífeyrissjóður fjárfesti grimmt í þessu eins og aðrir lífeyrissjóðir og ber gríðarlegt tap. Að koma hér upp og segja: Við vissum þetta allt saman, við berum enga ábyrgð, við komum alveg eins og hvítþvegnir englar að þessu borði, er fráleitt. En það segir okkur í hvaða nauðvörn hv. formaður viðskiptanefndar er í þessu máli að eina innleggið í málinu frá hv. þingmanni er einhver reiðilestur sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Og ef hv. þingmaður trúir því virkilega sem hún sagði erum við í mun verri málum en maður mundi ætla, það að vera formaður hv. viðskiptanefndar hefur alltaf verið mikilvægt en það hefur kannski aldrei verið mikilvægara en nú. Það er lágmark að sá aðili sem því embætti gegnir kynni sér viðskiptamál og hvað er að gerast í heiminum hvað þau mál varðar. Það er ekki hægt að afsaka það með neinu. Menn sem gegna því embætti þurfa að kynna sér þau mál.

Það sem við ræðum hér er Bankasýslan. Hér hafa ekki komið nein svör. Menn hafa sagt að verið sé að taka til á skrifborðshorni ráðherrans. Á sama tíma og menn segjast vera að koma í veg fyrir pólitísk afskipti leggja þeir til að þessi sami ráðherra skipi einn í stjórn þessarar stofnunar. Það er ein af þeim spurningum sem ekki hefur verið svarað, hvernig það getur farið saman og verður fróðlegt (Forseti hringir.) að vita hvort það mun gerast í þessari umræðu.