137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli hv. þingmanns á því að ég flutti framsöguræðu við upphaf 3. umr. um þetta mál í dag. Það háttaði hins vegar svo til að hv. þingmaður var ekki viðstaddur þegar hún var flutt. Það kann að vera skýringin (Gripið fram í.) á því að hann stendur í ræðustól og fullyrðir að ég hafi ekki komið eða tekið þátt í þessari umræðu en það var það sem hv. þingmaður sagði, frú forseti.

Í öðru lagi verð ég að segja að mér finnst það einkennileg árátta, en maður heyrir það ansi oft, að ef einhver er ekki pólitískt sammála eða tekur ekki undir með sjónarmiðum sem viðkomandi flytur fram sé það vegna þess að maður hafi ekki kynnt sér málin og hafi ekki vit á þeim. Ég frábið mér það. Ég tel að ég hafi kynnt mér þau verkefni sem viðskiptanefnd eru falin eins vel og kostur er. Það hefur verið mikið að gera í þeirri nefnd. Það vill einfaldlega þannig til að við hv. þingmaður erum ósammála í grundvallaratriðum. Það hefur ekkert að gera með það hvort hann eða ég höfum betra vit á hlutunum eða höfum aflað okkur betri þekkingar á málunum. Við erum ósammála og það er ekkert að því.