137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var hér og hlustaði á framsöguræðu hv. þingmanns áðan og þess vegna hef ég talað með þessum hætti. Ég hlustaði eftir röksemdum fyrir þeim efasemdum sem þar komu upp og þær komu ekki fram. Hv. þm. Magnús Orri Schram hefur tekið þátt í umræðunni og síðan er hv. þm. Álfheiður Ingadóttir búin að taka þátt í því með þessum andsvörum. Nú verður hver og einn sem á það hlustar að meta hvort gagn hafi verið að því. Ég stend við það, það snýst ekkert um skoðanir fólks, að ef hv. þingmaður trúir því í fullri alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á fjármálakreppunni í heiminum hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér málið. Það er alveg 100% öruggt, enginn afsláttur gefinn af því. Sömuleiðis stend ég við það að ef hv. þingmaður telur að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn beri ábyrgð á tilskipan Evrópusambandsins um innstæðutryggingar hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér málið. Það er svo einfalt og hefur ekkert með skoðanir að gera. (Gripið fram í.) Það snýst um hvort viðkomandi aðili hafi í besta falli kynnt sér málið eða hvort hún tali kannski gegn betri vitund. En hér erum við að ræða mjög mikilvægt mál og það standast ekki þær röksemdir sem færðar eru fram fyrir þessum málum. Hér er meiri hlutinn að keyra í gegn mál sem kostar 100 milljónir á hverju ári fyrir skattgreiðendur og ætlar væntanlega að taka það af velferðarþjónustunni þrátt fyrir að forsendur hafi gerbreyst frá því að þetta mál var lagt fyrir.