137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig ágætt að hv. þingmaður rýni í kristalskúluna fyrir okkur og spái fyrir um framtíðina. Ég hef þó ekki áhyggjur af því að þessi víðtæku áhrif verði af málinu sem hún lýsir. Það nær auðvitað til takmarkaðs hóps og ég held að það sé þess vegna ástæðulaust fyrir hv. þingmann að hafa áhyggjur af heilbrigðisstarfsmönnum því að þetta nær ekki til lækna almennt. Hér er um að ræða forstöðumenn ríkisstofnana og hlutafélaga í eigu ríkisins, þ.e. stjórnenda, og ég held að almennt séu menn sammála um að síðustu árin hafi hlaupið nokkur ofvöxtur í laun stjórnenda, bæði á hinum almenna markaði og á ríkismarkaðnum og að búið sé að taka á því á hinum almenna markaði víða. Það er því eðlilegt að ríkið taki líka á því hjá sér, setji skorður við því hve há laun stjórnendur geta samið um. Í sjálfu eru ekki nein einföld sannindi um samhengi launa og árangurs í starfi eins og starfsemin í samfélaginu hefur sýnt okkur á síðustu árum, hæstu launatékkarnir fóru kannski ekki endilega til farsælustu stjórnendanna í samfélaginu. Þess vegna held ég að verið sé að gera of mikið úr málinu með því að hafa þessar miklu áhyggjur af því. En ég held engu að síður að það sé mikilvægt að við sýnum að ríkið bregst líka við í þessu og dregur mörk og setur skorður við því hversu há laun stjórnendur hjá því geta haft. Ég lýsi þeirri eindregnu von að það hafi ekki áhrif á kosti þeirra stjórnenda sem við höfum í störfum núna og að frumvarpið verði sannarlega til góðs og lími saman í samfélaginu fremur en hitt.