137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:21]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gæta ákveðins misskilnings í umræðunni um kjararáð. Ástæðan fyrir því að verið er að lækka laun forstöðumanna er ekki sú að verið sé að færa þá undir kjararáð heldur vegna þess að við höfum verið að fara í gegnum mikla fjármálakreppu undir leiðsögn lánardrottins sem er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Þessi lánardrottinn hins íslenska ríkissjóðs krefst þess að við skerum niður útgjöld ríkisins.

Við bankahrunið eignaðist ríkið mjög mörg fyrirtæki sem áður voru einkafyrirtæki. Þar hafði launaþróunin verið gerð dreifstýrð. Hún var miklu miðstýrðari fyrir 10–15 árum og þessi dreifstýring varð til þess að laun hækkuðu mikið, sérstaklega hjá toppunum í þessum fyrirtækjum — reyndar ekki bara hjá toppunum heldur líka samanborið við æðstu embættismenn hjá ríkinu. Ríkið er því að fá í hendurnar fólk á mjög háum launum, fólk sem er á mun hærri launum en annað fólk sem hefur lengi verið ríkisstarfsmenn og er í sambærilegum störfum. Það er hreinlega ólöglegt að borga mismunandi laun fyrir sambærileg störf þannig að ég sé að sem jákvætt að verið sé að færa þessa forstöðumenn stofnana inn undir kjararáð. Það er hægt að nota kjararáð til að tryggja að ríkið borgi sömu laun fyrir sambærileg störf. Það er jafnframt von mín að þessi aukna miðstýring sem kjararáðið er dæmi um muni líka halda (Forseti hringir.) þegar fer að ganga betur í efnahagslífinu þannig að það séu ekki bara topparnir sem njóta góðs af aukinni velmegun heldur (Forseti hringir.) hækki allir sem falla undir kjararáð.