137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:21]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni eitthvert vitlausasta frumvarp sem sést hefur frá þessari hæstv. ríkisstjórn. Það eru auðvitað margar leiðir til þess að reyna að ná launajöfnuði og lækkun þeirra launa sem talist geta til ofurlauna, ef einhver eru, á þessum vettvangi. En að binda þetta í lög með þessum hætti sem hér er gert er auðvitað arfavitlaust. Þetta mun ekki hafa neitt annað í för með sér en atgervisflótta og við höfum fordæmi fyrir því hvernig það er þegar opinberar stofnanir eru bundnar af launagreiðslum sínum.

Það var t.d. þannig hjá Fjármálaeftirlitinu í mörg ár að það var ekkert annað en uppeldisstöð fyrir bankakerfið í landinu, fyrir fjármálastofnanirnar í landinu. Þangað kom fólkið úr skólunum og besta fólkið var tekið þaðan vegna þess að Fjármálaeftirlitið, opinbert fyrirtæki, gat ekki staðið sig í launasamkeppninni. Það er alveg fáránlegt ef við ætlum að búa þannig um hnútana að við getum ekki keppt á jafnréttisgrundvelli við þessi fyrirtæki um að hafa hæfa stjórnendur og það mun leiða það af sér það að við missum úr landi margt af okkar besta fólki. (Forseti hringir.) Þetta býður hættunni heim, kannski sérstaklega í heilbrigðisgeiranum (Forseti hringir.) þar sem þess eru þegar farin að sjást merki.