137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er um að ræða þingsályktun og náttúruverndaráætlun fyrir árin 2009–2013. Verið er að samþykkja viljayfirlýsingu um áætlun og ef hún verður ekki samþykkt núna er engin áætlun í gangi fyrir árið 2009 því að þá klárast málið ekki fyrr en í fyrsta lagi í nóvember eða desember á þessu ári. Hin fimm ára áætlun sem á að vera í gildi lögum samkvæmt verður aftengd í heilt ár. Ég verð að minna á, frú forseti, að tillagan er unnin á grundvelli 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd. Það ber skylda til að leggja þessa áætlun fyrir Alþingi. (UBK: Ólesna?) Síðasta áætlun rann út um síðustu áramót og Alþingi ber skylda til að bregðast við þessu. Ég og meiri hluti umhverfisnefndar tökum svona lagaskyldur alvarlega. (TÞH: Án þess að hlusta á umsagnaraðila?) Menn verða að átta sig á því í stjórnarandstöðunni að við lifum á nokkuð óvenjulegum tímum, alla vega frá 6. október sl. (UBK: Af hverju hefur nefndin ekki fundað um þetta?) Það hafa verið óeðlilegir tímar, við höfum verið með stór og erfið mál og þetta mál hefur ekki komist þar, óvænt frestun á þingfundum og þar fram eftir götunum. (Gripið fram í.) Ég var líka að segja það, hv. þingmaður, að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfðum fullan skilning á þessum aðstæðum frá 6. október. Ég ætla líka að bæta því við að þetta mál hefur verið unnið faglega. Það var unnið faglega, kallaður var fyrir fjöldi umsagnaraðila á síðasta þingi … (Gripið fram í.) Eru þetta erfið svör? Er ekki hægt að hlusta án þess að kalla fram í? Það var unnið faglega, það var kallaður fyrir fjöldinn allur af umsagnaraðilum þannig að málið er unnið í botn faglega, ég fullyrði það. (Gripið fram í.) Ég skil það ekki ef þingið getur ekki byggt á vinnu fyrri þinga þar sem liggja fyrir allar upplýsingar um gögn (Gripið fram í.) um þessa vinnu og umsagnir. Ég hafna því að málið sé ekki faglega unnið. Ég segi það og ítreka að okkur alþingismönnum ber lagaskylda (Forseti hringir.) til að fara fram með þessa áætlun.