137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Icesave-samningarnir eru svo hræðilegir fyrir íslensku þjóðina og hagsmunir þjóðarinnar svo heiftarlega fyrir borð bornir að auðveldlega er hægt að færa fyrir því rök að um landráðasamninga sé að ræða. Ég hef velt því fyrir mér eftir að ég settist á þing fyrir hverja ríkisstjórnin vinnur raunverulega og hverra hagsmuna hún gætir. Eitt er víst að ríkisstjórnin er ekki að vinna að hagsmunum Íslendinga. Nei, ríkisstjórnin vinnur að hagsmunum lánardrottna og erlendra fjármagnseigenda.

Aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra staðfesti í gær að friðhelgisréttindum landsins væri rutt í burtu í Icesave-samningunum. Ég var afar slegin yfir þessum fréttum því að ég hef oft bent á það úr þessum ræðustól og einnig í grein í Morgunblaðinu frá 25. júní, sem ég hvet þjóðina til að kynna sér, að þetta er grafalvarlegt mál. Ryðja á friðhelgisréttindunum í burtu. Áttar fólk sig á því hvað það er alvarlegt mál? Þegar friðhelgisréttindum er rutt burt hjá heilli þjóð þýðir það á mannamáli að standi íslenska ríkið ekki við samninginn yfirtaka Bretar og Hollendingar allar eigur íslenska ríkisins. Með þessu er átt við að hægt er að kyrrsetja gjaldeyrisvaraforða Íslendinga, flugvélar og skip, það er hægt að yfirtaka banka og það er hægt að yfirtaka auðlindir Íslendinga. Við eigum hvergi griðland. Ríkisstjórn Íslands, Bretar og Hollendingar hafa tekið allsherjarveð í eigum Íslendinga verði Icesave-samningurinn samþykktur á Alþingi. Því spyr ég hv. formann utanríkismálanefndar, Árna Þór Sigurðsson: Finnst hv. þingmanni eðlilegt að sá ráðherra sem telur svona samning góðan og glæsilegan fyrir þjóðina sé yfirleitt treystandi til að gegna ráðherraembætti fyrir íslensku þjóðina?