137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar til að beina fyrirspurn til hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar, varðandi þá tilraunalagasetningu sem á sér stað í þeirri nefnd.

Í eðlisfræði eru bæði til tilraunaeðlisfræði og fræðileg eðlisfræði en tilraunalagasetning ætti ekki að vera til. Í vor, fyrir einum eða tveimur mánuðum, samþykktum við lög um ráðstafanir í ríkisfjármálum, lög nr. 70/2009. Það var 29. júní þegar vörugjöldum var breytt í hundruðum vöruflokka. Á fundi skömmu áður hafði meiri hluti efnahags- og skattanefndar ákveðið að hverfa frá því sem upphaflega var ætlað, að hækka virðisaukaskatt á vissum sykruðum vörum úr 7% í 24,5% og fara frekar yfir í vörugjaldshækkanir. Það var gert á 15 mínútum, engir gestir, engar umsagnir og ekki neitt. Þessi kerfisbreyting var ákveðin á 15 mínútum hér uppi í færeyska herbergi.

Núna er að sjálfsögðu komin fram breyting á þessu vegna þess að menn felldu t.d. niður skatt á hjólbarða í þessu óðagoti og settu skatt á vörur sem ekki eru til [Hlátur í þingsal.] og sitthvað fleira þannig að þetta er dálítið vafasamt. Ég hlýt sem stjórnarandstöðuþingmaður að benda á þetta, það er skylda mín. Svona óðagot og svona hraði mega ekki eiga sér stað í dag. Ég spyr hv. þm. Helga Hjörvar, formann nefndarinnar, hvort þetta sé boðlegt og hvort ekki sé rétt að gefa örlítið meiri tíma til að skoða málin þegar menn fara í svona kerfisbreytingar á 15 mínútum.