137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Mér þótti ræða hv. þm. Atla Gíslasonar fyrr í umræðunni nokkuð ósvífin en verð þó að segja að hv. þm. Magnús Orri Schram sló allt út þegar hann lýsti þessu sem sérstaklega vönduðum vinnubrögðum í nefndinni. Bara til þess að hafa það á hreinu þá fundaði nefndin einu sinni um þetta mál og þá komu höfundar tillögunnar til fundar við nefndina. Síðan hefur bara ekki verið fundað um þetta mál í nefndinni. Það hafa gefist ótal tækifæri til þess. Reglulegir fundir umhverfisnefndar hafa fallið niður viku eftir viku eftir viku þannig að ef mönnum þótti svo brýnt að klára málið (Gripið fram í: Hvurs lags ...) hefði verið hægt (Gripið fram í: ... faglegum ...) við fjölda tækifæra að boða til gesti og fara efnislega yfir þetta.

Það er vísað hér til umræðu á síðasta þingi, á öðru kjörtímabili. Nú eru nýir þingmenn 27. Í umhverfisnefnd eru, hygg ég, átta af níu nefndarmönnum nýir og tóku ekki þátt í þeirri umfjöllun sem átti sér stað á síðasta tímabili. Þessi vinnubrögð eru því algjörlega fáheyrð og alveg ótrúlegt að menn reyni að verja þetta hérna með þessum hætti.

Ég var að rifja upp hvernig hæstv. umhverfisráðherra, sem flutti tillöguna, tók til orða þegar hún mælti fyrir málinu hér á sínum tíma.

Hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Tekin var ákvörðun um það í umhverfisráðuneytinu að afloknum kosningum að leggja náttúruverndaráætlun fram óbreytta þar sem talið var að nýtt þing, fjöldi nýrra þingmanna ætti að eiga aðkomu að framkvæmdinni og umfjölluninni í samráði og samstarfi við landeigendur og hagsmunaaðila.“

Það var sá háttur sem valinn var að hafa. Ég vildi gjarnan að hv. þm. Atli Gíslason eða aðrir sem tóku þátt í þessari afgreiðslu vildu vera svo vænir að útskýra hvað valdi því að þeir taka hér gerólíka afstöðu við ráðherrann í þessu máli og hvaða brýnu hagsmunir það voru að taka þetta út í morgun þegar ljóst er að það hefur ekki verið (Forseti hringir.) talið brýnt síðustu vikurnar að halda fund í nefndinni um þetta mál. (Gripið fram í: Hneyksli.)