137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa blandað sér í umræðuna um störf umhverfisnefndar í morgun þrátt fyrir að svör stjórnarþingmannanna hafi verið ansi rýr og hreinlega með hreinum ólíkindum að hlusta á hv. þm. Atla Gíslason sem hingað til hefur verið þekktur fyrir að tala úr þessum stóli um fagleg vinnubrögð og lýðræði. Ég er þess fullviss að menn tala þar ekki af sannfæringu. Mér þykja þessi vinnubrögð til háborinnar skammar og það eru mér mikil vonbrigði að sjá þetta gerast á Alþingi. Ég trúi því og treysti að þessir nýju þingmenn sem sitja hér eru ekki tilbúnir að skrifa athugasemdalaust án umfjöllunar upp á öll þau mál sem fram hafa farið í þingsal á öðrum þingum, sama úr hvaða flokki þeir eru. Ég tala nú ekki um nýjan flokk sem situr hérna á þingi sem enga hefur aðkomu haft að þessu máli, hefur ekki fengið að heyra í einum einasta umsagnaraðila. Þetta er ekki til fyrirmyndar og er, svo vægt sé til orða tekið, hreinlega til skammar. Mér þykir hreinlega miður að þurfa að tala svona úr þessum stóli en það er einfaldlega vegna þess að mér er algerlega misboðið hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Og ef vinnubrögðin í umhverfisnefnd voru svona mikið til fyrirmyndar þar sem nefndin lagði til ýmsar breytingar á ætluninni, hvers vegna var þá ekki tekið mið af þeim breytingum í núverandi umhverfisnefnd? Var það vegna þess að það var ekki tími til að skoða þær eða höfðu menn einfaldlega ekki skoðað þær? Voru menn búnir að gleyma, þrátt fyrir þessa miklu og góðu yfirferð síðustu nefndar, hvað fjallað var um og hverju var talað um að breyta?

Ég vonast til þess að hv. þm. Atli Gíslason hafi tækifæri til að tala aftur í dag og leiðrétta að hann telji þetta vera fagleg vinnubrögð vegna þess að ég vona að við eigum aldrei aftur eftir að sjá þetta á þingi. Og ég trúi því og treysti að flestallir nýir þingmenn, nema þá greinilega hv. þm. Magnús Orri Schram, séu sammála mér um að þeir ætli ekki að kvitta orðalaust upp á allar ákvarðanir og öll nefndarálit sem samþykkt hafa verið á fyrri þingum.