137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

123. mál
[14:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svörin og sömuleiðis hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir þátttöku í þessari umræðu. Það er alveg ljóst að spurningin um samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga hefur mjög sjaldan verið lögð fram. Þetta mál hefur verið mjög aftarlega á merinni. Við höfum ekkert gefið þessu gaum og örugglega hafa verið fyrir því ástæður. Menn hafa einfaldlega talið að það væri ekkert sérstaklega knýjandi fyrir okkur að slíkir samningar væru í gildi vegna þess að menn sáu ekki fyrir að þeir gætu lent í þeirri aðstöðu sem við höfum lent í og lentum í gagnvart Bretum sem beittu okkur hörðu núna í haust, eins og allir vita.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér núna hvert skjól okkar hefði verið ef við hefðum haft slíkan samning milli okkar og Breta en að mínu mati er reynslan í haust tilefni fyrir okkur til að herða okkur í þeim róðri. Við eigum núna að mínu mati að skoða mjög alvarlega að gera fleiri slíka samninga. Það er alveg ljóst mál af upptalningu hæstv. utanríkisráðherra að dæma að þeir samningar sem eru í gildi milli okkar og nokkurra annarra ríkja, 11 ríkja, eru í langflestum tilvikum við ríki sem við höfum tiltölulega litla efnahagslega hagsmuni af núna. En hins vegar er mjög mikilvægt að að þessu máli sé sérstaklega hugað.

Þegar málin eru skoðuð t.d. í alþjóðlegu samhengi liggur fyrir að við erum mjög aftarlega í þessum efnum. Við erum samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Alþjóðastofnunarinnar um lausn fjárfestingardeilna í 119.–123. sæti af 174 ríkjum sem gert hafa slíka samninga og má nefna að þau lönd sem gert hafa jafnmarga samninga og við Íslendingar eru Búrkína Fasó, Trínidad og Tóbagó, Saír og Sambía. En ríkin í kringum okkur eins og t.d. í Evrópu hafa miklu fleiri slíka samninga einfaldlega vegna þess að þau líta þannig á að með því sé verið að styrkja möguleika á því að fá aukna erlenda fjárfestingu og skapa öryggi fyrir erlendar fjárfestingar þeirra landa í öðrum ríkjum.