137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Eins og frú forseti nefndi réttilega er þetta mál nr. 26. Ég spurði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 20. maí sl. um það hvort haft verið hefði samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, fiskverkafólk, sjómenn og útgerðaraðila, áður en fyrningarleið ríkisstjórnarinnar var tilkynnt.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan því að nú er að verða kominn miður ágúst og því tveir og hálfur mánuður liðnir síðan fyrirspurnin var lögð fram en ráðherra hefur að jafnaði átta virka daga til þess að svara fyrirspurnum sem lagðar eru fram. Það hefur því ýmislegt gerst síðan þessi fyrirspurn var lögð fram en mér finnst eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann hagaði samráði við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi, launafólk og útgerðaraðila þegar þessi leið var tilkynnt, þ.e. að fyrna ætti fiskveiðiheimildir á 20 árum, eins og forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar boðuðu skömmu eftir síðustu kosningar.

Í framhaldinu kom í ljós að þessi aðgerð mundi hafa mjög mikil áhrif á starfsemi stærstu fiskvinnslufyrirtækja landsins sem þúsundir einstaklinga hafa atvinnu af og eru burðarásar í atvinnulífi landsbyggðarinnar í velflestum byggðarlögum hringinn í kringum landið. Það var því eðlilegt að sveitarfélög vítt og breitt um landið ályktuðu mjög harðlega gegn boðaðri stefnu ríkisstjórnarinnar og í framhaldinu ákvað hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að boða til samráðs um það hvernig menn ættu að haga stjórn fiskveiða í framtíðinni. Þá var reyndar búið að gefa það út að fyrna ætti aflaheimildir sem þessu næmi.

Það gleðilega var að formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Atli Gíslason, lýsti því yfir í fjölmiðlum og á opnum fundum að hann muni ekki standa að leið sem muni tefla íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu. Á meðan höfum við aftur á móti yfirlýsingar úr ranni Samfylkingarinnar sem m.a. kveða á um að fyrna mætti kvóta sjávarútvegsfyrirtækja allan í einu þess vegna eða jafnvel á þremur árum. Það er því mikill áherslumunur á milli stjórnarflokkanna í þessum efnum og ég vil hæla hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið á undangengnum vikum þar sem hann hefur talað um að hann hafi ríkan skilning á hagsmunum sjávarútvegsins. Þó að ég vilji síst af öllu útiloka neinar breytingar á því kerfi, enda er það ekkert hafið yfir endurskoðun, vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann fari ekki með opnum huga í það starf sem nú er fram undan. Og hvort sá starfshópur sem skipaður hefur verið til að endurskoða þetta hafi ekki rúmar heimildir til þess að veita hæstv. ráðherra ráðgjöf um það hvernig við högum (Forseti hringir.) fiskveiðimálum landsins í framtíðinni, enda er hér um að ræða undirstöðuatvinnugrein landsins.