137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:19]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi það að henni hafi ekki verið svarað fyrr er ekki við mig að sakast heldur hefur þingstörfum verið háttað þannig í sumar að þessi ágæta fyrirspurn hefur ekki komist á dagskrá fyrr. (Gripið fram í.) Engu að síður er hún hér komin og það er mjög gott.

Það er alveg hárrétt, það var haft samráð við hina ýmsu aðila sem tengjast sjávarútvegi um það hvernig sá starfshópur skyldi skipaður sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að endurskoða skuli lögin um stjórn fiskveiða. Hinn 1. júlí 2009 gaf ég einmitt út skipunarbréf til þeirra sem skipa þennan starfshóp og ég ætla að leyfa mér að vísa til þess skipunarbréfs, frú forseti. Þar segir:

„Með vísan til stefnuyfirlýsingar núverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða, hefur Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipað starfshóp til þess að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnarinnar.

Verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta, þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnina meðal þjóðarinnar. Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila, t.d. með viðtölum, viðtöku álitsgerða og á veraldarvefnum. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.“

Starfshópurinn hefur verið skipaður og ég held að það sé mjög gott að nota þetta tækifæri og upplýsa þingið um skipan þessa starfshóps en þar í eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka og -hreyfinga hér á þingi. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson og Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri eru fulltrúar Samfylkingarinnar og Guðbjartur er jafnframt formaður hópsins. Hv. þm. Björn Valur Gíslason og Lilja Rafney Magnúsdóttir eru fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson er fulltrúi Framsóknarflokksins, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Finnbogi Vikar er fulltrúi Borgarahreyfingarinnar.

Fulltrúar annarra aðila sem tengjast sjávarútvegi eru Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Adolf Guðmundsson formaður og Friðrik Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka íslenskra útvegsmanna, Arthúr Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, Sigrún B. Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi fyrir hönd Samtaka íslenskra sveitarfélaga, Erla Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri fyrir Samtök fiskvinnslustöðva, Jón Steinn Elíasson, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, Aðalsteinn Baldursson, formaður Matvælasviðs Starfsgreinasambands Íslands, og Guðmundur Þ. Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.

Það er rétt líka að það komi fram eins og segir í erindisbréfinu að ráðherrann muni leggja hópnum til verkefnisstjóra og kosta jafnframt starf hópsins hvað varðar greiningar og aðkeypta vinnu en eftir atvikum verði reynt að veita sem mesta aðstoð beint frá ráðuneytinu. Gert er ráð fyrir að hver tilnefningaraðili beri kostnað af sínum fulltrúa. Starfshópnum ber eðlilega að gera kostnaðarmat í upphafi vegna nauðsynlegrar gagnaöflunar og aðfenginnar sérfræðivinnu. Að sjálfsögðu þarf að vinna þetta verk innan fjárheimilda.

Þetta er þá erindisbréf hópsins. Ég treysti því ágæta fólki sem þarna er skipað til þess að takast á við þetta vandasama verkefni. Það verður að líta á það frá öllum þeim hliðum sem þar geta verið og þeim álitaefnum sem þar eru, en einmitt af þeim ástæðum vísa ég til vinnu þessa hóps varðandi hvernig einstök álitaefni þarna eru unnin og skilgreind. Það skiptir miklu máli að þessi vinna verði vönduð og eins og ég sagði treysti ég þessum hóp, frú forseti, prýðilega til að takast á við þetta verkefni og skila því til ráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.