137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegri forseti. Ég ætla í örstuttu máli að hvetja hæstv. ráðherra til þess að gera það sem hann segist ætla að gera og hafa víðtækt samráð. Ef hann gerir það og hlustar á þær athugasemdir sem fram eru komnar hef ég engar áhyggjur. Þær eru nær einróma gegn þeirri leið sem búið er að ákveða að fara og það þykir mér vera skrumskæling á lýðræði að setja á fót nefnd sem er með fyrir fram gefna niðurstöðu, en það er önnur saga.

Annað sem ég vildi vekja athygli á í skipan þessarar nefndar eru ítrekaðar yfirlýsingar og mikil markmið þeirra tveggja flokka sem skipa þessa ríkisstjórn um að hafa kynjahlutföllin í lagi. Það hefur verið ítrekað í hverju því máli sem við höfum fengið til viðskiptanefndar að það þurfi nú að hnykkja á því að hafa kynjahlutföllin í lagi.

Í þessari nefnd eru 17 einstaklingar, þar af fjórar konur. Ég veit að stjórnmálaflokkunum var gefið tækifæri á að skipa bæði karla og konur til að þetta mætti vera jafnara, (Forseti hringir.) ég veit það vegna þess að ég var kvenfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem tilnefndur var. (Forseti hringir.) Ég geri ekki lítið úr kollega mínum hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, (Forseti hringir.) en ég vildi vekja athygli á þessu, virðulegi forseti.