137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu því að við erum hér að ræða um fjöregg íslensku þjóðarinnar sem er sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnugrein landsbyggðarinnar. Ég fagna því að hæstv. ráðherra talaði hér með þeim hætti að sú breiða nefnd sem hann hefur skipað — reyndar ekki með jöfnum kynjahlutföllum eins og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir benti á — megi hafa nokkuð frjálsar hendur við tillögugerð sína. Hæstv. ráðherra sagði í svari sínu í upphafi ekkert um það hvort fara ætti þá fyrningarleið sem aðallega samfylkingarmenn hafa boðað á undangengnum árum, eins og við þekkjum vel.

Ég treysti hæstv. ráðherra fyrir því að hann verði skynsamur þegar kemur að tillögugerð um framtíðarstarfsumhverfi íslensks sjávarútvegs og ég býð fyrir hönd okkar framsóknarmanna aðstoð okkar enda skipuðum við í þennan starfshóp. Vonandi náum við þverpólitískri sátt um það hvernig við ætlum að standa að sjávarútvegsmálum hér á landi til langrar framtíðar því að eftir það mikla hrun sem orðið hefur hefur sjávarútvegurinn trúlega aldrei verið eins mikilvægur okkur Íslendingum og einmitt í dag.

Ég tek undir með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að ég varð var við það eftir að sumir forustumenn ríkisstjórnarinnar gáfu út fyrningarleiðina að það varð mikill skjálfti í greininni og starfsumhverfi greinarinnar var vissulega ógnað. Ég vonast til þess að það sé einhver ró að færast yfir það í ljósi yfirlýsingar hæstv. ráðherra hér og fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem hafa heitið því að standa með íslenskum sjávarútvegi í gegnum þykkt og þunnt enda er hér um að ræða mjög mikilvæga hagsmuni fyrir okkur öll þegar við ætlum að reisa landið úr þeim efnahagslegu rústum sem blasa við okkur í dag. Ég óska hæstv. ráðherra og nefndinni góðs gengis í því.