137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um það hvort sjávarútvegsráðherra hyggist leggja útflutningsálag á fisk, samanber ákvæði þar um í stjórnarsáttmálanum.

Þetta fiskveiðistjórnarkerfi og lög og ákvæði sem lúta að því, meðal annars hvað varðar þessa þætti, tók ríkisstjórnin í arf. Það er athyglisvert að hv. fyrirspyrjandi kom ekkert inn á eigin skoðanir í þessu máli nema að því er virtist að það væri nauðsynlegt að hafa sem frjálsastar heimildir til að flytja óunninn fisk úr landi.

Hins vegar er alveg hárrétt að í þessum ágæta stjórnarsáttmála eða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um, eins og hv. þingmaður minntist á, að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt álag á fisk eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað. Sem sagt að grípa til þeirra aðgerða sem lögin heimiluðu eftir því sem kostur er til að tryggja að fiskur fari á innlendan markað. Það markmið er óbreytt. Ég tel reyndar mjög brýnt að málum sé þannig fyrir komið að íslenskar fiskvinnslur geti haft fullt jafnræði á við erlendar við að bjóða í og fá fisk sem veiddur er á Íslandsmiðum til vinnslu hérlendis.

Ef við lítum aðeins á hvernig þetta hefur breyst voru árið 2003 flutt út 27.800 tonn af fiski í gámum eða um 8% af heildarverðmæti fiskaflans það ár. Síðan óx þetta og árið 2006 voru flutt út 48.500 tonn og þá erum við komin í tæp 13% af heildarverðmæti afla á Íslandsmiðum. Árið 2008 vorum við síðan komin upp í 58.655 tonn af botnfiski eða tæp 16% af heildarverðmæti aflans en einungis 12% af magninu. Það liggur í því að menn telja sig á ýmsan hátt hafa fengið hærra verð á mörkuðum erlendis. Ráðherra hefur, eins og hv. þingmaður minntist á, heimildarákvæði til að taka á þessum málum, skv. 11. gr. laga nr. 2006, um stjórn fiskveiða, til að ákveða að afli af ákveðnum fisktegundum sem fluttur er óunninn á erlendan markað skuli reiknaður með álagi þegar metið er hversu miklu af aflamarki skips er náð hverju sinni. Getur álagið verið allt að 20% á þorsk og ýsu en 15% á aðrar tegundir. Álag þetta varð til þegar í upphafi kvótakerfisins og var 25% í mörg ár og lagðist á allan botnfisk sem fluttur var út óunninn. Það var síðan lækkað í áföngum og fellt niður af óunnum afla sem vigtaður er innan lands. Árið 2007 tók þáverandi sjávarútvegsráðherra ákvörðun um að afnema útflutningsálagið á óunninn fiski. Hins vegar er heimildin enn þá fyrir í lögum.

Á þessum skamma tíma hefur verið unnið innan þeirra lagamarka sem ráðuneytið hefur til að hafa áhrif á að afli sem veiddur var á Íslandsmiðum kæmist til íslenskra fiskvinnsla á jafnræðisgrunni. Við höfum heimildir til að afnema undanþágur til vigtunar hér á landi en eins og nú er var viðurkennt að vigta mætti aflann erlendis og það yrði þá gert undir eftirliti Fiskistofu. Við höfum heimildir til að afnema það. Það er alveg hárrétt. Við höfum Fjölnet sem er markaðsvefur þar sem á að vera hægt að bjóða í og tryggja jafnræði fiskvinnsla í aðgengi að fiski sem er á markaði en það hefur samt ekki virkað með þeim hætti sem vænst var. Einnig hefur verið borið við að þær einingar sem settar voru á markað séu of stórar þannig að það þurfi minni einingar til að hægt sé að bjóða á markaði svo margar fiskvinnslur sem eru háðar fiski á markaði geti boðið minna magn. Allt þetta er til skoðunar, frú forseti, en ráðuneytið mun vinna innan þeirrar lagaheimildar sem við höfum og sækja þá lagabreytingu ef nauðsynlegt er til að tryggja að íslenskar fiskvinnslur eigi jafnan aðgang a.m.k. til þess fisks (Forseti hringir.) sem veiddur er á Íslandsmiðum til vinnslu og það er markmið (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar.