137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. ráðherra rakti höfum við áralanga reynslu af svokölluðu útflutningsálagi í fiski. Reynslan varð sú að þetta fyrirkomulag skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt. Þess vegna og líka vegna þess að þessi lagasetning stóðst ekki með nokkrum hætti var ákveðið að hverfa frá því fyrirkomulagi. Þess í stað var ákveðið að setja upp annað fyrirkomulag til að reyna að tryggja betur aðgengi fiskvinnslunnar í landinu að hráefninu. Ef reynslan er sú að þessi lög og þær reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli þeirra laga hafa ekki náð því markmiði sem að var stefnt vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að endurskoða reglugerðina með það í huga að auðvelda fiskvinnslunni betur aðgengi að hrávinnslunni en fara ekki út í þá vitleysu að endurvekja útflutningsálagið sem reynslan sýnir okkur að nær ekki þeim markmiðum sem að er stefnt.

Við skulum líka hafa það í huga að það geta verið margar ástæður fyrir því að menn senda út fiskinn óunninn, t.d. þegar ýsuaflinn jókst þá jókst einfaldlega útflutningur (Forseti hringir.) á óunninni ýsu vegna þess að markaðurinn innan lands (Forseti hringir.) réði ekki við aukið hráefnisframboð á því sviði.