137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar um að ef fara á að skoða þessa hluti sé mjög eðlilegt að þeir séu teknir til umræðu í þeirri nefnd sem ráðherrann er nýbúinn að skipa. En hins vegar vil ég vara við því, og tek undir orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að hér verði farið að vekja upp gamla drauga sem eru þekktir því að það er alveg ljóst að við þurfum á því að halda að sjávarútvegurinn geti starfað og skilað okkur eins góðum hagnaði eins og hægt er inn í þjóðarbúið.

Ég held að það sé mikilvægt að við lærum af reynslunni og það er mikilvægt fyrir ráðherra eins og aðra að skoða myndina heildstætt þegar rætt er um útflutning á óunnum fiski og öðru slíku vegna þess að það eru vitanlega markaðsaðstæður, aðstæður innan lands og utan, sem ráða því hvernig að þessu er staðið. Ég treysti ráðherra fullkomlega til að flana ekki að þessu og leggja auknar byrðar á sjávarútveginn sem hann getur ekki staðið undir.