137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hefði talið rétt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefði sparað sér hrokann í máli sínu og sagt okkur hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á þeirri stefnuyfirlýsingu sem lögð er fram yfirleitt í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.“

Markmiðið er að efla innlenda fiskvinnslu og að fiskvinnslurnar eigi aðgang að þessu hráefni til jafns við aðra. Það skiptir einmitt gríðarlega miklu máli núna að við nýtum auðlindir eins og fiskinn til að hámarka þjóðhagslegan ábata af þessari auðlind og efla og standa á bak við atvinnu hér á landi. Þess vegna er verið að skoða öll þessi atriði, með hvaða hætti er hægt að tryggja þetta. En ég höfða líka til samfélagslegrar ábyrgðar útgerðarinnar í þessum efnum, að þurfa að stýra öllu með boði og bönnum í þessa veruna, það er sjálfsagt leið hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. En ég tel að það eigi að vera sameiginlegt markmið allra, útgerðarmanna, sjómanna, fiskvinnslunnar, okkar hér á Alþingi, að lög og reglur séu með þeim hætti að allir vinni samkvæmt þeim til að stuðla að því að sá fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum skapi okkur sem mestan þjóðhagslegan ábata og þar á meðal vinnslu hér á landi. Tilgreindar eru í lögunum þær aðgerðir sem hægt er að grípa til (Forseti hringir.) og þær verða allar skoðaðar.