137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

Háskólinn á Akureyri.

61. mál
[14:50]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Háskólinn á Akureyri er sverð og skjöldur háskólamenntunar á landsbyggðinni og hefur sannað gildi sitt á undangengnum árum. Nú þegar rætt er um endurskipulagningu á fjármálum hins opinbera, uppstokkun á menntakerfinu og sameiningu háskóla hef ég ákveðið að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. menntamálaráðherra sem hljóðar svo:

Hyggst ráðherra standa vörð um að Háskólinn á Akureyri verði áfram sjálfstæð stofnun?

Ég spyr vegna þess að Háskólinn á Akureyri hefur á mörgum undangengnum árum verið okkur alþingismönnum mjög hugleikinn. Og í byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 sem iðnaðarnefnd samþykkti árið 2006 og ég gegndi formennsku í, lagði nefndin sérstaka áherslu á eflingu menntunar á landsbyggðinni. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Menntamál eru byggðamál og því leggur nefndin til að uppbygging menntunar á landsbyggðinni verði forgangsatriði í stefnumótandi byggðaáætlun áranna 2006–2009. Háskólinn á Akureyri hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu háskólanáms á landsbyggðinni. Reynslan sýnir að nemendur sem stunda nám við skólann eru mun líklegri til að setjast að á landsbyggðinni en nemendur annarra háskóla.“

Þetta var það sem iðnaðarnefnd lagði fyrst og fremst áherslu á í störfum sínum á sínum tíma þegar byggðaáætlun fyrir þessi umræddu ár var samþykkt með öllum samhljóða greiddum atkvæðum á Alþingi Íslendinga. Það er alveg ljóst sama hvar í flokki við stöndum að Háskólinn á Akureyri og sú glæsilega starfsemi sem þar fer fram hefur mikinn hljómgrunn á Alþingi Íslendinga. Því velti ég fyrir mér hvort einhver stefnubreyting hafi átt sér stað hjá núverandi ríkisstjórn þegar kemur að því að standa vörð um sjálfstæði Háskólans á Akureyri. Ég þekki það eftir að hafa setið í fjárlaganefnd að útibú á landsbyggðinni — segjum sem svo að Háskólinn á Akureyri verði gerður að útibúi — verða oft fyrst fyrir niðurskurðinum vegna þess að það er auðveldara fyrir hinar stóru stofnanir í Reykjavík að skera niður fjær sér en nær sér jafnvel á næstu skrifstofu. Sagan segir þetta og ég gæti bent á mörg tilfelli í þessari umræðu. Spurningin er þessi:

Ætlar hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að Háskólinn á Akureyri verði áfram sjálfstæð stofnun? Að Háskólinn á Akureyri geti áfram sinnt því lykilhlutverki í uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni sem hann hefur gegnt á undanförnum árum, (Forseti hringir.) með miklum sóma? Þar held ég að sjálfstæði stofnunarinnar hafi skipt lykilmáli.