137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

Háskólinn á Akureyri.

61. mál
[14:53]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ég get tekið undir orð hans um að Háskólinn á Akureyri hefur auðvitað verið okkur Íslendingum öllum til mikils sóma með starfi sínu. Ekki aðeins hefur hann verið sverð og skjöldur háskólanáms á landsbyggðinni heldur hefur hann náð miklum árangri sem við getum öll verið stolt af þannig að ég tek undir þau orð. Hins vegar er eðlilegt að hv. þingmaður spyrji enda liggja fyrir eins og áður hefur komið fram í umræðum í þingsal, tvær skýrslur um háskólamál þar sem lagðar eru til sameiningar háskóla, fækkun stofnana. Í annarri skýrslunni er lagt til að opinberu háskólarnir verði sameinaðir í einn og einkareknu háskólarnir verði sameinaðir í annan. Í hinni er ekki eins skýrt á um þetta kveðið en velt vöngum yfir fækkun háskóla.

Síðan þessar skýrslur komu fram hefur verið starfandi rýnihópur í menntamálaráðuneytinu þar sem í sitja fulltrúar frá ólíkum stofnunum, þó ekki sem fulltrúar þeirra stofnana heldur fulltrúar sem þekkja til starfsemi ólíkra stofnana og m.a. situr þar einmitt prófessor við Háskólann á Akureyri. Rýnihópurinn hefur verið að fara yfir þær hugmyndir sem þarna liggja fyrir og mun skila af sér líklega í þessum mánuði eða undir lok mánaðarins. Ég held að það sem stendur upp úr í þeim hópi sé að rf hægt er að ná fram hagræðingu með auknu samstarfi og aukinni verkaskiptingu sé það gott. Það er í rauninni mjög í takt við það sem mér hefur sýnst því að sameiningar skila ekki endilega sparnaði. Þær kalla jafnvel á aukinn kostnað ef ætlunin er að halda starfsemi í útibúum, eins og hv. þingmaður nefndi, um land allt þannig að mér finnst mikilvægt að við höfum þau sjónarmið í huga. Ég held að við munum sjá fram á aukið samstarf allra háskóla á Íslandi á næstu árum og ég hef skynjað mikinn vilja til þess frá forsvarsmönnum háskólastofnana á Íslandi að efla t.d. samstarf um stoðþjónustu og ýmislegt þar sem hægt er að ná fram hagræðingu en um leið viðhalda ákveðnu faglegu sjálfstæði stofnana. Ég held að það sé líka lykilatriðið í að ná árangri, það er auðvitað að stofnanirnar hafi ákveðið faglegt sjálfstæði.

Hins vegar, eins og ég kom að áðan, mun rýnihópurinn skila af sér seinni hluta þessa mánaðar en ég held að þær tillögur sem þar muni liggja fyrir verði ákveðinn grunnur að stefnu til frambúðar. Þar er byggt á því starfi sem þegar hefur verið unnið í tíð forvera míns í ráðuneytinu og ég held að við getum séð fram á ákveðnar breytingar á íslenskum háskólum með þessu aukna samstarfi. Það skiptir máli að skapa umhverfi sem er hvetjandi til samstarfs þannig að skólarnir geti nýtt sér tækifærið, samlegðaráhrif og annað.

Hvað varðar Háskólann á Akureyri sérstaklega held ég að það sé mjög mikilvægt að við lítum til inntaks þess starfs sem þar er. Þar hefur auðvitað verið unnið mjög dýrmætt starf t.d. þegar kemur að ýmsu sem tengist norðurslóðastarfi, sjávarútvegsfræðum og öðru slíku. Ég held að það séu ýmsir mjög spennandi framtíðarmöguleikar fyrir Háskólann á Akureyri að verða það sem við getum kallað t.d. norðurslóðaháskóla, að tengja saman ýmis fræði tengd hinum hefðbundnu atvinnugreinum við önnur fræði, nýsköpun í þeim greinum, þannig að ég held að sóknarfærin séu gríðarlega mörg fyrir þessa stofnun. Ég læt mér jafnvel detta í hug aukið samstarf Háskólans á Akureyri við ýmis setur um land allt, svo dæmi sé tekið, og tengja þau saman, útbúa einhvers konar net þeirra stofnana þannig að þær njóti samstarfsins hver við aðra við áframhaldandi þróun og rannsóknir í þessum greinum. Ég held að á svona tímum þegar kreppir að í samfélagi okkar — við þurfum að draga saman, við sjáum fram á samdrátt til fjárveitinga, til háskóla á næsta ári, það mun að sjálfsögðu verða erfitt fyrir skólann — sé mjög mikilvægt að við nýtum öll færi til að skólarnir starfi saman þannig að þeir nái að viðhalda faglegum gæðum og starfi sínu með því að fá stuðning hver af öðrum. Ég held að aðalsamkeppnin núna sé í raun og veru við skóla í útlöndum. Aðalsamkeppnin snýst um að halda okkar góða, unga fólki, okkar góða fræðafólki hér á landi og þá þurfum við öll að leggjast á eitt. Ég skynja þann vilja úr háskólasamfélaginu þannig að ég hef lagt áherslu á þessi tvö lykilatriði: Samstarf, skiptingu verka og að menn nýti sér kraftana saman til að komast í gegnum þetta.