137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

Háskólinn á Akureyri.

61. mál
[15:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari mikilvægu umræðu að mínu mati. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni um að fjárfesting í menntun á tímum sem þessum er trúlega besta fjárfesting sem völ er á. Ég tel að það lykilhlutverk sem Háskólinn á Akureyri hefur sinnt og gegnt með miklum sóma á undangengnum árum að þar megi ekki verða nein breyting á. Ég var ánægður að heyra að hæstv. ráðherra talaði um aukið samstarf og ég hefði líka viljað heyra hana tala um aukna samvinnu, sem er ekki síður fallegt orð, á milli háskóla og stofnana frekar en sameiningar.

Ég vil sjá það í framtíðinni að Háskólinn á Akureyri verði áfram öflugur háskóli sem þjónustar ekki hvað síst fólk af landsbyggðinni. Það er sannað að þeir sem fara í nám í Háskólanum á Akureyri flytjast oftar en ekki eitthvert út á landsbyggðina. Það hefur sýnt sig að Háskólinn á Akureyri er mikil kjölfesta í sínu byggðarlagi á Akureyri, á Eyjafjarðarsvæðinu, í Þingeyjarsýslum, og það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að standa vörð um þessa stofnun sem hefur stórhækkað þekkingarsvið á landsbyggðinni, sem er mikilvægt í dag.

Ég vil því árétta það og það væri gott að fá það alveg kristaltært frá hæstv. ráðherra að hún hafnaði því að vegið yrði að sjálfstæði Háskólans á Akureyri. Ég er opinn fyrir þeim hugmyndum að Háskólinn á Akureyri eigi ágæta samvinnu við aðrar háskólastofnanir, jafnt innlendar sem erlendar, það eru mikil sóknarfæri í því. En fyrst og fremst eiga forsvarsmenn Háskólans á Akureyri að ráða hvernig þeir verja þeim fjármunum sem ætlaðir eru til starfsins á fjárlögum hverju sinni, þær ákvarðanir séu ekki teknar á höfuðborgarsvæðinu því að þá er hætt við því að stofnun eins og (Forseti hringir.) Háskólinn á Akureyri gæti lent út undan og það viljum við síst af öllu. (Forseti hringir.) Því hvet ég hæstv. ráðherra til að af taka öll tvímæli um framtíð Háskólans á Akureyri.