137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

eignarhald á fjölmiðlum.

152. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á þessu og einnig hæstv. ráðherra fyrir það sem hún sagði hér. Ég túlka orð hennar þannig að ekki sé útilokað að það verði skoðað sérstaklega hvernig eignarhaldi á fjölmiðlum er háttað og ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn fari yfir það og setji skýrar reglur um hvernig eignarhald fjölmiðla skuli vera því að við megum ekki gleyma því að fjölmiðlar eru það sem við köllum fjórða valdið. Ég hef velt því fyrir mér persónulega hvort ekki sé full ástæða til þess að fara yfir þátt fjölmiðla í íslensku þjóðlífi, fara yfir hagsmunatengslin, fara yfir fjárhagslegu tengslin, fara yfir eignarhaldið og velta því upp hver þáttur fjölmiðla er í íslensku þjóðlífi, í efnahagshruninu hugsanlega, í bankahruninu, í hinu pólitíska starfi.

Hvernig eru tengslin? Hver eru fjárhagslegu tengslin, hver eru fjölskyldutengslin, hver eru pólitísku tengslin? Hver á í raun fjölmiðla og hver stýrir þeim? Ég held að fjölmiðlarnir geti ekki verið út undan í þeirri umræðu um breytingar á íslensku samfélagi (Forseti hringir.) sem við erum að tala um hér dögum saman.