137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

eignarhald á fjölmiðlum.

152. mál
[15:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og góð svör. Hún upplýsti að verið er að vinna að þessu málum og er jafnvel von á drögum, frumvarpi eða skýrslu þessarar nefndar í haust. Ég vonast til þess að þegar þar að kemur verði umræðan málefnaleg og tengist ekki persónum eins og svo oft er í íslensku þjóðfélagi. Vonandi verður það andrými í þjóðfélaginu, að þetta snúist ekki um menn séu spyrtir við einhverja einstaklinga hvort sem það er í stjórnmálunum eða atvinnu eða annars staðar í þjóðfélaginu því að það gerir alla umræðu afskaplega ómálefnalega og afskaplega ómarkvissa.

Fyrir mér er þetta mjög einfalt. Ég held að gegnsæið sé afskaplega mikilvægt. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson benti á að ríkið er líka stærsti aðilinn. Ríkisfjölmiðillinn er ekki undanskilinn þar. Það væri nú ekki verra að það væri líka gagnsæi þar. Þar eru gríðarleg völd þegar kemur að fréttaflutningi, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, og þarf ekki að gera það neitt tortryggilegt. Það er eðlilegt að við förum yfir þetta í rólegheitunum, ræðum þessa hluti málefnalega. Það er mjög eðlilegt að það séu ólík sjónarmið en eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór yfir er þetta kallað fjórða valdið af góðri ástæðu. Það er sjálfsagt fyrir okkur og vonandi berum við gæfu til að fara yfir öll þau mál sem misfórust hjá okkur í rólegheitunum og við getum skoðað hvað má betur fara til að koma í veg fyrir að það gerist aftur. Einn sá þáttur í þjóðlífinu sem er ansi stór eru fjölmiðlarnir.

Það er ekkert leyndarmál að ég er mjög fylgjandi frelsi í fjölmiðlum. Ég treysti svo sannarlega einstaklingunum til að reka, eiga og stýra fjölmiðlum og sem betur fer eru fleiri tækifæri núna en áður m.a. út af tæknimálum og það er algerlega frábært. (Forseti hringir.) En við skulum fara vel yfir þetta og ég fagna (Forseti hringir.) bæði svörum ráðherra og þeirri vinnu sem þarna er unnin. Ég treysti því að hér geti orðið góð umræða sem og annars staðar í þjóðfélaginu.