137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Árna Johnsen vegna þess að við erum að tala um afskaplega mikilvægt mál. Við þekkjum til sögu Argentínu sem fór í mikla efnahagslega dýfu og þar var reynslan sú að spillingin væri jafnvel meiri á leiðinni upp úr eðjunni en á leiðinni ofan í hana. Ég held að við þurfum að gjalda varhuga við slíkum fordæmum í þessu efni. Þess vegna legg ég mikla áherslu á og vona að svo sé um alla þingmenn á hv. Alþingi að mjög verði vandað til þessara verka. Ég treysti hæstv. ráðherra Gylfa Magnússyni til að fara vel með það vald sem þessu verkefni fylgir vegna þess að það er mjög horft til þess og þarna þurfum við að hafa allar upplýsingar uppi á borðum en ekki ofan í skúffum.