137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:34]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Þetta er þörf umræða. Það væri líka þarft að vita hver þessara fyrirtækja eru enn í rekstri, hvort þau hafa verið auglýst til sölu eða afhent einhverjum aðilum til áframhaldandi rekstrar. Svo verður að vera ljóst hverjir skipa stjórnirnar, hverjir eru í stjórnum og hvar hægt er að finna það. Og í þriðja lagi, frú forseti, vakti það undrun mína þegar hæstv. viðskiptaráðherra segir að hann hafi óskað eftir upplýsingum úr ríkisbönkum og frá skilanefndum um það sem hann bað um og hafi ekki fengið þær upplýsingar. Hvað finnst hæstv. viðskiptaráðherra um slíkt í ljósi þess umhverfis sem við erum í í dag, að hæstv. viðskiptaráðherra sé synjað um upplýsingar í krafti laga um fjármálafyrirtæki? Það er verulega umhugsunarvert og líklegt að hv. fyrirspyrjandi Árni Johnsen kanni það enn frekar.