137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Það gengur náttúrlega ekki að hæstv. viðskiptaráðherra fái ekki svör frá undirstofnunum sínum, það gengur bara ekki. Ef þeir aðilar vilja hafa það trúnaðarmál er það trúnaðarmál gagnvart viðskiptaráðherra, hæstv. ráðherra á að meta hvort hann fylgir því eftir eða ekki. Bankarnir eiga ekki að hafa það í hendi sér. Það sýnir að tortryggni í garð íslensku bankanna og fjármálastofnananna í dag er á góðum rökum reist. Það lifir enn í glæðum gamla bankakerfisins sem var undirlagt af siðspillingu, „plotti“ og hlutum sem hefðu betur litið dagsins ljós fyrr. Þetta er mergurinn málsins. Ráðherra getur ekki látið bjóða sér svona svar. Það er krafa og ekki síst þegar komið er að öllum hliðum þessa máls varðandi dómskerfið og fleira, þá eru opnaðar dyr, þá geta bankarnir ekki haldið áfram að vera með lokaðar dyr, með einhverja starfsemi sem er falin. Hún er falin og varðar lífið í landinu, hún varðar lífshjólið sjálft, atvinnulífið, og möguleika fólks á að hafa atvinnu og tekjur.

Það er auðvitað vandmeðfarið að fjalla um svona mál eins og hæstv. ráðherra sagði. Það má ekki búa til of mikinn vanda, nóg er af honum fyrir án þess að leggja endilega öll spil á borðið. En þó verður að svara ákveðnum hlutum eins og til að mynda varðandi setu manna í nefndum. Hverjir eru það? Eru það fyrirtækin eða utanaðkomandi aðilar eða einhverjir menn úr bögglauppboði bankanna? Hverjir skipa stjórn í þessum efnum í dag?