137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vátryggingafélög.

131. mál
[15:43]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér hefur borist fyrirspurn í þremur liðum frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Áður en ég svara fyrirspurninni vil ég taka fram að svarið hefur verið reiðubúið um nokkurra vikna skeið og hefur ekki staðið á mér að flytja það þannig að töfin á því að svarið kæmi fram getur ekki skrifast á viðskiptaráðuneytið eða þann sem hér stendur.

Ég vík að fyrstu spurningu hv. þingmanns. Um starfsemi vátryggingafélaga gilda lög um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, og fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit með starfsemi þeirra og því hvort þau uppfylli skilyrði starfsleyfis svo sem um fjárhagsgrundvöll. Í lögunum er að finna ákvæði sem taka á því þegar fjárhagsleg staða vátryggingafélags uppfyllir ekki skilyrði og hvernig brugðist skuli við. Þá er að finna sérákvæði í bráðabirgðaákvæði með lögunum um aðlögunartíma fyrir vátryggingafélög til að uppfylla skilyrði um lágmarksgjaldþol sem rót á að rekja til innleiðingar á tilskipunum um gjaldþol vátryggingafélaga. Lög um vátryggingastarfsemi kveða því á um sérstök úrræði sem gripið er til, uppfylli vátryggingafélag ekki skilyrði starfsleyfis. Því fer fjarri að vátryggingafélög, hvort sem þau uppfylla lágmarksgjaldþol eða ekki, starfi óáreitt.

Vík ég nú máli mínu að annarri spurningu hv. þingmanns. Ég frétti af tilkynningu Fjármálaeftirlitsins þann 16. júlí sl. um tap innlendra skaðatryggingafélaga. Á árinu 2008 kom fram að í árslok 2008 hafi tvö skaðatryggingafélög, Sjóvá–Almennar tryggingar hf. og Vörður tryggingar hf., ekki uppfyllt kröfur um lágmarksgjaldþol og hafi félögin starfað samkvæmt áætlunum um að rétta við fjárhag félaganna í samræmi við 90. gr. laga um vátryggingastarfsemi. Það getur hent vátryggjendur sem og aðra eftirlitsskylda aðila að uppfylla ekki tímabundið skilyrði starfsleyfis, t.d. lágmarksskilyrði um gjaldþol. Þegar þannig stendur á fer um afgreiðslu þess að hætti ákvæða laga um vátryggingastarfsemi. Í 90. gr. laganna kemur fram að vátryggingafélag sem ekki uppfyllir skilyrði um lágmarksgjaldþol skuli leggja fram áætlun um hvenær og á hvern hátt markinu verði náð og metur Fjármálaeftirlitið hvort þær áætlanir teljist fullnægjandi. Vátryggingafélag sem starfar samkvæmt slíkri áætlun lýtur sérstöku eftirliti Fjármálaeftirlitsins og ýmsum takmörkunum í rekstri.

Ástæður þess að fjárhagslegur styrkur vátryggingafélaga minnkar geta verið margar. Í fyrrnefndri fréttatilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu þann 16. júlí sl. kom t.d. fram að innlendu skaðatryggingafélögin hafi tapað samanlagt um 49,6 milljörðum kr. á síðasta ári en tapið megi nær eingöngu rekja til mikils taps af fjárfestingum félaganna. Með vísan til framangreinds er ekki hægt að fullyrða að þrátt fyrir að vátryggingafélög uppfylli ekki skilyrði um lágmarksgjaldþol að eftirlitsaðili hafi brugðist hlutverki sínu.

Hvað varðar málefni Vátryggingafélagsins Sjóvár–Almennra trygginga hf. og hvort eftirlit hafi brugðist í því tiltekna tilviki er ljóst að fara þarf nánar ofan í kjölinn á því hvað gerðist og ástæður þess hvort stjórnarmenn félagsins eða aðrir stjórnendur hafi brugðist, upplýsingagjöf hafi verið ábótavant eða hvort eftirlit hafi ekki verið nægjanlegt eða brugðist í einhverjum skilningi. Þá hefur komið fram að mál tengd Sjóvá og fyrrum eigendum þess eru nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara. Sú rannsókn mun væntanlega varpa ljósi á hvað fór úrskeiðis. Þá er rétt að vekja athygli á því að fyrir Alþingi liggur frumvarp til heildarendurskoðunar laga um vátryggingastarfsemi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum, þar á meðal eru auknar kröfur til stjórnar og stjórnenda vátryggingafélaga um útreikning á gjaldþoli.

Að lokum vík ég máli mínu að þriðju spurningu hv. þingmanns. Eins og fram kom í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins þann 8. júlí sl. ákvað ráðuneytið í samráði við ríkisstjórnina að taka þátt í endurskipulagningu á vátryggingastarfsemi Sjóvár og hefur ríkissjóður með aðkomu sinni þannig aðstoðað að tryggja hagsmuni almennings. Ríkissjóður seldi SAT eignarhaldsfélagi hf., sem er dótturfélag Glitnis, kröfur sem ríkissjóður eignaðist við fall viðskiptabankanna í október sl. Samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins er sala þessara krafna jafnframt þáttur í þeirri vinnu sem fram fer í fjármálaráðuneytinu við að hámarka verðgildi þeirra eigna sem ríkissjóður fékk við fall bankanna í október.

Að lokum vil ég taka fram að ég hef engar upplýsingar um hvernig staðið var að samningi Landhelgisgæslunnar eða Ríkiskaupa um tryggingafé Landhelgisgæslunnar og treysti mér því ekki til að segja neitt um það mál að svo stöddu.