137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[16:06]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað og þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég er algjörlega sammála þeim um að hér er um gríðarlega mikið hagsmunamál að ræða fyrir landsbyggðina og þessar niðurgreiðslur eru mikilvægur liður í því, og það er auðvitað hugmyndin með þeim, að jafna búsetuskilyrði í landinu. Það er vilji okkar að halda því áfram og beita þessu tæki áfram til þess.

Virðulegi forseti. Ég verð að biðja hv. þingmann afsökunar á því að hafa misskilið spurninguna eða komið með upphæðina í heildartölu. Ég er eingöngu með árið í fyrra, þ.e. 2008, og síðan 2009, en ég tek árin á undan gjarnan saman og sendi sundurliðað til hv. þingmanns. Á síðasta ári voru niðurgreiðslurnar eða heildarniðurgreiðslurnar beint vegna húshitunar 938 millj. kr. og gert er ráð fyrir svipaðri upphæð á þessu ári.

Enn og aftur, virðulegi forseti, vil ég taka fram að þessar orkusparandi aðgerðir — mér fannst hv. þingmaður kannski gera fulllítið úr þeim — eiga eftir að skipta mjög miklu máli. Varmadælurnar t.d. eru tækni sem getur skipt miklu máli og dregið verulega úr kostnaði þeirra heimila sem búa við svona hátt raforkuverð. Þær geta dregið verulega úr kostnaði þeirra vegna kaupa á raforku og menn mega ekki gera lítið úr því. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við eigum eftir að sjá töluvert af umsóknum, eins og ég nefndi áðan, um styrki til þess að heimili geti komið sér upp slíkum búnaði. Hef ég miklar væntingar til þess og hvet raunar þessi heimili sem það geta að grípa til þessara orkusparandi aðgerða vegna þess að þær geta skipt verulegu máli og muna miklu í krónum talið (Forseti hringir.) og heimilin munu finna verulega fyrir þeim.