137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

neyslustaðall.

99. mál
[18:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Hún lýsti forsögu þessa máls en það var árið 2004 sem ég lagði fram fyrirspurn til þáverandi forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að framfylgja þingsályktunartillögu sem samþykkt var 2001 um að gerður yrði neyslustaðall, sem er til staðar að ég best veit á öllum hinum Norðurlöndunum og víðar. Þáverandi forsætisráðherra svaraði því þá til að viðskiptaráðherra mundi skipa starfshóp sem hafa ætti umsjón með gerð forkönnunar að framkvæmd slíkrar neysluviðmiðunar.

Þegar ég spurðist næst fyrir um þetta mál 2006 varð fyrir svörum þáverandi viðskiptaráðherra Jón Sigurðssonar og greindi frá því að starfshópur hefði skilað frá sér skýrslu í október 2006 og komist að þeirri niðurstöðu að útgáfa neysluviðmiðs, með svipuðum hætti og önnur vestræn ríki hafa gert, sé framkvæmanleg hér á landi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér hefur ekkert gerst í framhaldi af birtingu þessarar skýrslu. Nú eru liðin átta ár síðan þessi þingsályktunartillaga var samþykkt og það er auðvitað eðlilegt að hv. þingmaður spyrjist fyrir um þetta. Ég deili með henni þeirri skoðun að hér er á ferðinni mjög brýnt mál. Að vísu hefur það vafist fyrir mönnum hvenær ætti að framkvæma það. Ég óskaði eftir því við viðskiptaráðherra Gylfa Magnússon að hann meti möguleikana á því að fylgja eftir niðurstöðum skýrslunnar, enda heyrir þetta mál undir viðskiptaráðherra, og láti uppfæra kostnaðartölur sem m.a. er spurt um í þessari fyrirspurn og endurmeti stöðuna að öðru leyti.

Varðandi hvort slíkur neyslustaðall eigi að ná til allra opinberra aðila eins og til bótakerfisins, lána, styrkja og annarrar greiðslu, benti nefndin í skýrslu sinni á að opinbert neysluviðmið gæti komið að gagni fyrir þá fjölmörgu aðila sem vinna við slík viðmið. Nefndin taldi hins vegar að ekki ætti að mæla alfarið fyrir um notkun eins slíks neysluviðmiðs hér á landi. Eins og hv. þingmanni er kunnugt hefur ýmislegt gerst frá því að skýrslan var birt 2006 og ég held að það sé margt sem bendir til þess ekki síður nú en þá að ástæða sé til að taka upp slík neysluviðmið. Ég tel að hæstv. viðskiptaráðherra hljóti að skoða þær tillögur sem fram koma í skýrslunni í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi og þeirra úrræða og viðmiða sem nú er unnið eftir og treysti ég honum til að komast að skynsamlegri niðurstöðu að því er það varðar.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir að taka upp þessa fyrirspurn. Það verður til þess að nú verður rekið á eftir þessu máli.