137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vaxtarsamningar á landsbyggðinni.

143. mál
[18:15]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og það tækifæri að fá að ræða vaxtarsamningana í þingsal vegna þess að þeir hafa skipt gríðarlega miklu máli á þeim landsvæðum þar sem þeir hafa verið virkir.

Spurt er hver reynslan af vaxtarsamningunum á landsbyggðinni er. Reynslan af þeim sjö svæðum þar sem vaxtarsamningar hafa verið gerðir á milli stjórnvalda og hagsmunaaðila í heimabyggð er mjög góð enda hefur helstu markmiðunum með gerð þeirra verið náð. Með vaxtarsamningunum er ábyrgðin á stefnumörkun fyrir vaxtargreinar á viðkomandi svæði færð til hagsmunaaðila í héraði. Eitt af meginmarkmiðum vaxtarsamninganna er að efla samstarf og uppbyggingu svokallaðra klasa í ákveðnum atvinnugreinum þar sem byggt er á svæðisbundnum styrkleikum, sérstöðu og þörfum. Dæmi um þetta er að finna innan sjávarútvegs, landbúnaðar og ferðaþjónustu auk þekkingar- og rannsóknarstarfs.

Við mat á framvindu vaxtarsamninga hefur hingað til verið lagt almennt mat á starf framkvæmdaraðila auk þess sem hvert og eitt verkefni er metið sérstaklega til árangurs með tilliti til markmiða hvers samnings. Horft er til gildis verkefna fyrir landsvæði og fyrirtæki, þar á meðal áhrif samstarfs, vöruþróunar, rannsókna, markaðs- og kynningarstarfs, utanaðkomandi ráðgjafar og áætlanagerðar sem unnin hafa verið á vettvangi vaxtarsamninganna.

Fjöldi samstarfsverkefna og klasa hefur orðið til fyrir tilstyrk vaxtarsamninganna. Þar er unnið að sameiginlegum markmiðum og hagsmunamálum fyrirtækjanna með dyggum stuðningi stoðkerfis atvinnulífsins um land allt. Vaxtarsamningarnir hafa líka stuðlað að bættum tengslum milli atvinnulífs á hverju svæði fyrir sig og stoðkerfisins. Slíkt tengsl efla mjög svæðisbundna atvinnuþróun og nýsköpun. Loks hefur svæðisbundin sérþekking aukist með öflugu fræðslustarfi og samstarfsverkefnum af ýmsu tagi sem óhætt er að fullyrða að eru einungis fyrstu skrefin í löngu samstarfi. Erlendur samanburður áþekkra verkefna sýnir að eftir því sem samstarfið eflist verða verkefnin stærri og þróast í auknum mæli að umfangsmiklum rannsóknar- og þróunarverkefnum. Í dag hefur samstarfið verið að þróast á afar jákvæðan veg svo búast má við að á næstu missirum verði um fjölbreytt þróunar- og nýsköpunarverkefni að ræða auk þátttöku í alþjóðlegum verkefnum. Reynslan af þessum samningum er því afar góð og berum við líka miklar væntingar til áframhaldandi samstarfs.

Spurt er hvort ráðherra hyggist framlengja slíka samninga. Í 1. tölulið Sóknarstefnu til framtíðar, sem er hluti af stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar, Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, kemur m.a. fram að ríkisstjórnin muni efna til víðtæks samráðs undir forustu forsætisráðuneytisins um sóknaráætlanir fyrir alla landshluta til eflingar atvinnulífs og lífsgæða til framtíðar. Markmiðið er að kalla fram sameiginlega framtíðarsýn og að samþættar verði áætlanir í samgöngumálum, fjarskiptamálum, ferðamálum og byggðamálum auk áætlana um eflingu sveitarstjórnarstigsins og, eins og segir í stjórnarsáttmálanum, ýmsa vaxtarsamninga og aðra opinbera stefnumótun og framkvæmdaáætlanir sem ætla má að komi til endurskoðunar í kjölfar efnhagshrunsins. Vaxtarsamningarnir eru því hluti af sóknaráætlun þessarar ríkisstjórnar sem ná yfir landið allt.

Við undirbúning að endurnýjun vaxtarsamninga nú haustið 2009 hefur starfshópur starfað undir forustu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands með aðkomu atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar. Mun hópurinn móta árangursviðmið við framkvæmd nýrra vaxtarsamninga sem stuðst verður við hjá öllum starfandi vaxtarsamningum svo framvinda og árangur verði mæld á skýran og samræmdan hátt á milli svæða. Í þessu starfi er afar mikilvægt að horft sé til framvindu þeirra vaxtarsamninga sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár og reynslunnar af því starfi. Við mótum árangursmælikvarðanna verður einnig horft til árangurskerfa sambærilegra verkefna sem stuðst er við í Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Danmörku og Þýskalandi en Nýsköpunarmiðstöð Íslands á í mjög nánu samstarfi við stofnanir í þessum löndum og tekur þátt í nefndum og vinnuhópum þar sem sameiginlega er unnið að mótun árangursmælikvarða í sambærilegum vaxtarsamningum.

Sú þróunarvinna sem unnin hefur verið fram að þessu verður að teljast sterkur grunnur að frekari framþróun vaxtarsamninganna en þeir hafa hérlendis verið óðum og eru óðum að ná ámóta stöðu og sambærileg verkefni nágrannaþjóða okkar og annarra Evrópusambandsríkja til eflingar samkeppnishæfni svæða, atvinnuþróunar og nýsköpunar þar sem byggt er á samstarfi og hugmyndafræði klasa. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að þessir samningar hafi snjóboltaáhrif og séu og hafi verið mjög til styrkingar á þeim landsvæðum þar sem þeir eru (Forseti hringir.) virkir.