137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vaxtarsamningar á landsbyggðinni.

143. mál
[18:20]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessa ágætu fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég held að það sé alveg ljóst af þessum svörum, þó að þessir samningar hafi gengið misjafnlega fyrir sig eftir landsvæðum eins og gengur, að mörg hundruð störf hafa skapast í kjölfar vaxtarsamninganna. Það er ekki amalegt fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að taka við keflinu af Framsóknarflokknum sem stuðlaði náttúrlega að því að þessir samningar færu af stað, þó að það sé öfundsvert að horfa til þess núna þegar þeir stækka og stækka og munu vonandi leiða af sér fjölda nýrra starfa til viðbótar. Það eru ekki slæm eftirmæli fyrir þá ráðherra sem gegnt hafa embætti iðnaðarráðherra á undangengnum árum — og eru þeir margir hverjir framsóknarmenn — að heyra slíka lofræðu hjá hæstv. iðnaðarráðherra um vaxtarsamningana. Það er ekki slæmt bú sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur tekið við í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum.