137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vaxtarsamningar á landsbyggðinni.

143. mál
[18:21]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég tek undir orð félaga míns, hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, um að það sé ánægjulegt að heyra hversu vel hefur gengið með vaxtarsamningana og að sú vinna sem framsóknarmenn lögðu á sig við að koma þessum vaxtarsamningum hafi virkilega skilað árangri.

Ég get talað af persónulegri reynslu, ég vann bæði að því þegar vaxtarsamningurinn varð til og að hugmyndavinnunni auk þess sem ég vann hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands sem sá um umsýsluna fyrir vaxtarsamninginn á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Má nefna þar nokkur verkefni sem hafa skilað sér af þeim vaxtarsamningi, Suðurland bragðast best, sem tengdist síðan öðru verkefni, Söfn á Suðurlandi.

Ég vildi benda á að það er mjög mikilvægt sem hæstv. ráðherra sagði, að skilin á milli Nýsköpunarmiðstöðvar, (Forseti hringir.) Byggðastofnunar, atvinnuþróunarfélaganna og vaxtarsamninganna verði mjög skýr í þeirri stefnumótunarvinnu sem fram undan er.