137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vaxtarsamningar á landsbyggðinni.

143. mál
[18:25]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fínu umræðu um vaxtarsamningana, gott gengi þeirra og gildi. Mönnum var hér tíðrætt um bú Framsóknarflokksins, hversu góðu búi tekið er við í iðnaðarráðuneytinu og ég segi nú bara: Þó það nú væri að Framsóknarflokkurinn hafi nú gert eitthvað rétt. Þetta er svo sannarlega eitt slíkt. (Gripið fram í.)

Það er rétt sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson sagði að vissulega hafa þessir samningar skapað störf. Þeir hafa skilað fjölda starfa á landsvísu og sömuleiðis hafa öflug samstarfsverkefni sem byggja á þessum vaxtarsamningum jafnframt dregið að sér fjármagn. Þarna erum við komin að þessum snjóboltaáhrifum sem rætt var um áðan. Sömuleiðis hafa menn séð að aukin samvinna í héraði skilar meiri árangri. Þessir samningar hafa skilað því að ný starfsemi er að líta dagsins ljós víða um land og öflugt rannsóknar- og þróunarstarf. Og sú öflugu þekkingarstarfsemi sem við sjáum núna á landsbyggðinni byggir að miklu leyti til á þessari klasahugsun og -hugmyndafræði sem vaxtarsamningarnir byggja á og er það afar jákvætt.

Ég var spurð hér af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um stöðu sóknaráætlunar ríkisstjórnarinnar. Hún er í mjög góðum gangi. Undirbúningur að henni gengur mjög vel og er verið að kalla til fjöldann allan af fólki til þess að byggja í ákveðna sviðsmynd sem við förum síðan að fylla inn í með tímanum, á næstu mánuðum.

Virðulegi forseti. Aftur þakka ég þessa góðu umræðu, það skiptir máli að halda þessum vaxtarsamningum áfram. Þeir eru ungir og það er staðreynd að það þarf lengri tíma til þess að láta þá dafna þannig að þeir nái að skila hinum raunverulega árangri, sumir segja 10 ár og aðrir 15 ár. (Forseti hringir.) Ég vona því að við eigum eftir að sjá þá lifa í það minnsta svo lengi.