137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var gengið mun lengra á sínum tíma í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en núverandi ríkisstjórn gerir nú. Þá var hreinlega sett upphæð inn í fjárlagafrumvarpið, 15 millj. kr., sem fjármálaráðherra, sem var á þeim tíma Geir H. Haarde, vildi að yrði innheimt á fjölsóttum ferðamannastöðum. Sett var niður nefnd til að athuga hvernig hægt væri að standa að því og nefndin klofnaði í jafnmarga parta og hægt var. Það var enginn sammála um hvernig ætti að gera þetta.

Þá var talið að það væri allt of dýrt að innheimta gjald. Þetta væru það fáir staðir sem svo margir kæmu á þannig að gjaldið færi eiginlega í innheimtukostnað, það væri svo kostnaðarsamt að hafa fólk með kaskeiti að innheimta að gjaldið kæmist aldrei til skila.

Núna er staðan hins vegar sú að við fáum afar marga ferðamenn og það stefnir í að við fáum milljón ferðamenn hingað árið 2016. Það þarf að byggja salerni, það þarf að byggja brýr, göngustíga og allt það og af hverju í ósköpunum ættu skattgreiðendur að borga þetta allt?

Ég vil lýsa mig sammála þeirri stefnu að taka umhverfisgjöld. (Forseti hringir.) Það er einungis spurning um hvernig á að útfæra það og ég held að það sé gott að skoða það að taka gjöld, annaðhvort þegar fólk er að koma inn í landið með skipum og flugvélum eða einhvers konar tryggingagjald, jafnvel gistináttagjald. Mér finnst ekki að skattgreiðendur eigi að borga þetta.