137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

ívilnanir og hagstætt orkuverð.

154. mál
[18:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og ég held að ég geti tekið undir flest sem fram kom í svari hennar. Það er athyglisvert að heyra hugmyndir um að aðrir aðilar komi að fjármögnun orkufyrirtækja og orkuverkefna. Ég held að það sé skynsamlegt að skoða og sömuleiðis að stytta leiðirnar þannig að þetta gangi hraðar fyrir sig því að við þurfum á atvinnu að halda núna. Sem betur fer höfum við borið gæfu til þess, og stundum hefur þurft að taka pólitískan slag, að nýta þessa umhverfisvænu orku okkar. Ef við hefðum ekki gert það, virðulegi forseti, værum við í miklu verri stöðu. Þá værum við miklu háðari erlendum aðilum varðandi orku og sömuleiðis fengjum við ekki þær gjaldeyristekjur og þau störf sem við höfum núna. Við skulum hafa það í huga.

Í stjórnarsáttmálanum er ýmislegt sem vinnur gegn þessum markmiðum sem hæstv. ráðherra nefndi. Það liggur t.d. fyrir að það sem fjallar um Árósasamninginn mun tefja alla hluti, svo dæmi séu tekin. Ýmislegt fleira mætti nefna sem er talið undir náttúruvernd, ekki alltaf réttilega. Það væri ágætt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þess hvort þetta sé eitthvað meira en falleg orð úr ræðustól þingsins því að það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal að þetta snýst um að fólkið fái vinnu við umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Það er ekkert nýtt að á Íslandi sé grænn iðnaður. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er blessað álið meira að segja kallað græni málmurinn af góðri ástæðu. Bæði (Forseti hringir.) þarf tiltölulega litla orku til að framleiða það og endurnýta og síðan er það afskaplega umhverfisvænt þegar það er notað t.d. í farartæki.