137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

stuðningur vegna fráveituframkvæmda.

144. mál
[19:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég hefði kannski viljað sjá og heyra nánar um og fá fram vilja ráðherrans, ekki síst með tilliti til fortíðar hennar sem forsvarsmanns í sveitarstjórnargeiranum, m.a. um framhaldið og lenginguna. Hvort ráðherra hafi hug á því að taka málið upp og leggja til framlengingu á þessum lögum eða taka þau upp í heild sinni. Eins hvort þetta sé sjónarmið um heimild eða hvort um lögbundna greiðslu sé að ræða. Í því sambandi er rétt að minnast á að þetta er 20% greiðsla. Það hefur lengi verið rifist um hvort þetta sé endurgreiðsla virðisaukaskatts eða ekki. Ríkisvaldið vildi aldrei viðurkenna það en í raun og veru er það viðurkennt í síðustu breytingu á lögunum þar sem varðandi hina breytinguna var bara sagt að það yrði aldrei hærra en virðisaukanum næmi. Ef endurgreiðslan er lægri en 20% hagnast ríkið á því í raun og veru, því meir sem sveitarfélögin framkvæma. Ríkið hefði því á árunum 2006 og 2007, ef það hefði ekki verið greitt af fullu, haft af því verulegar tekjur að sveitarfélögin uppfylltu þessar skyldur sínar.

Síðan er hinn þátturinn sem við höfum aðeins komið inn á. Þau sveitarfélög sem fóru í þetta fyrst voru þau stærstu og öflugustu og þau fóru fyrst og fremst í tæknilegar lausnir, að koma þessu frá sér eins hratt og hægt er án þess að fara í miklar hreinsanir eins og við þekkjum. Aftur á móti eru þau sveitarfélög sem eru síðast í þessum kafla gjarnan langt inni í landi og þurfa að fara í mjög tæknilegar lausnir, þessa þriggja þrepa hreinsun sem er miklu, miklu dýrari. Lögin hefðu því kannski þurft að taka tillit til þess að þau sveitarfélög þurfa á miklu víðtækari stuðningi að halda en ella, auk þess sem þetta eru dreifbýlissamfélög þar sem þarf að leggja mjög langar lagnir. Á síðustu árum hefur byggð í þessum sveitarfélögum einnig (Forseti hringir.) gjörbreyst þannig að kröfurnar, m.a. af ríkisins hálfu, eru þess eðlis að þetta er ekki gerlegt við núverandi fjárhagsaðstæður.