137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

stuðningur vegna fráveituframkvæmda.

144. mál
[19:10]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Ég vil þakka Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að vekja máls á þessu og raunar tel ég að málefni sveitarfélaganna yfir höfuð séu sífellt meira aðkallandi í því efnahagsumhverfi sem nú er. Í ljósi þess sem Gunnar Bragi Sveinsson nefndi líka að ekki verði hart gengið að sveitarfélögunum að því er varðar að uppfylla skyldur, þá er það sameiginlegt verkefni hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, að sinna og standa vörð um grunnþjónustuna. Mér segir svo hugur að það verði sífellt meira krefjandi verkefni á allra næstu missirum og árum og þá getum við t.d. nefnt rekstur grunnskóla og leikskóla og því um líkt. Ég held því að það sé afar mikilvægt að við hér, bæði ríkisstjórn og stjórnarandstaða, ræðum þessi mál af skilningi gagnvart sveitarfélögunum.

Varðandi framlengingu á lögunum sem fyrirspyrjandi velti hér upp hef ég satt að segja velt því fyrir mér hvort það sé rétt nálgun vegna þess að eins og hann benti réttilega á eru lögin að sumu leyti ófullkomin. Það eru þarna þættir sem þyrfti a.m.k. að taka til verulegrar endurskoðunar, til að mynda að því er varðar staðsetningu sveitarfélaga, mismunandi stærð þeirra og mismunandi aðstæður að mörgu öðru leyti og að því er varðar heimildarákvæðið. Ég þekki það frá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að það hefur valdið sveitarfélögunum verulegum vanda þegar þau gera áætlun sem miðar við tiltekið hlutfall endurgreiðslu en lenda síðan í því að heimildarákvæðið er nýtt í þeim skilningi af hendi ríkisins að um töluvert minni upphæð er að ræða þegar allt kemur til alls inn í rekstur sveitarfélagsins.

Ég vil í lokin þakka fyrir afar góða umræðu og gagnlega og vænti þess að við ræðum stöðu sveitarfélaganna enn frekar hér á næstu þingum. Ég lofa fyrirspyrjanda því að ég mun skoða þetta afar vel og treysti honum til að standa vaktina fyrir sveitarfélögin hér (Forseti hringir.) eins og við hin gerum sem höfum unnið á vettvangi sveitarstjórnarmála.