137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

áætlaður kostnaður við ýmis verkefni.

151. mál
[19:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég kem enn og aftur að stjórnarsáttmálanum. Ég gæti örugglega tekið aðra hrinu líka við að spyrja út í hann því að þessi langi sáttmáli hefur fengið mjög litla umræðu og mikilvægt er að við séum með nokkuð á hreinu hvað ríkisstjórnin ætlar sér í hinum ýmsu málum.

Hins vegar vakti athygli mína þegar ég renndi yfir sáttmálann á sínum tíma hvað þar er mikið af verkefnum sem gert er ráð fyrir að fara í og stundum fær maður á tilfinninguna að hann sé ekki saminn á vormánuðum 2009. Þess vegna vildi ég taka út ákveðin atriði. Nefna má ýmislegt fleira til sögunnar en þar sem við horfum fram á, virðulegi forseti, að tekjur okkar munu dragast mikið saman á næstu árum, og það er eins hjá ríkisvaldinu og hjá heimilum að þegar tekjur dragast saman þarf að mæta því með því að spara á ýmsum sviðum.

Mér leikur forvitni á að vita hver kostnaðurinn er við eftirtalin verkefni. Virðulegi forseti, ég nefni stjórnlagaþingið, viðbætur við velferðarkerfið og hverjar þær eru ef einhverjar, endurskoðun framfærslugrunns LÍN og hækkanir þar, aðlögunarstuðning til bænda sem skipta úr hefðbundinni ræktun í lífræna, auðveldun nýliðunar í landbúnaði og eflingu Jafnréttisstofu. Þetta mun kosta aukna fjármuni og þess vegna vil ég spyrja hvernig ætlunin er að afla fjármuna til þessara verkefna. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi okkur um það. Ég efast ekki um að menn hafa legið yfir því en mjög langan tíma tók að semja þennan sáttmála, auk þess að það voru sömu flokkar sem tóku við eftir kosningar og voru í ríkisstjórn fyrir kosningar.

Nokkuð hefur verið um það rætt, og var sett inn í stjórnarsáttmálann sérstaklega, að menn ætluðu að minnka aðkeypta þjónustu hjá þekkingariðnaðinum, sem orkar nokkuð tvímælis. Ætli það hafi nokkurn tíma verið jafnhagstætt að ná kaupum á þeirri þjónustu og fróðlegt væri að vita hvað er gert ráð fyrir að minnka mikið aðkeypta þjónustu hjá þekkingariðnaðinum.