137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

vaxtamál.

[10:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Peningastefnunefnd metur forsendur til lækkunar stýrivaxta samkvæmt lögum og samkvæmt þeim forsendum sem hún á að leggja til grundvallar. Það var athyglisvert að heyra lýsingu hv. þingmanns á þeim búsifjum sem íslensk heimili hafa orðið fyrir vegna lækkandi fasteignaverðs. Skyndilega er ábyrgðin á því orðin þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr en ekki þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þingmaður sat í og kastaði sprekum (Gripið fram í.) á bál innstæðulausrar hækkunar á húsnæðismarkaði (Gripið fram í.) með tilheyrandi erfiðleikum (Gripið fram í.) fyrir heimili landsins. (Gripið fram í.) Ég er að tala um, hv. þingmaður, þá efnahagsstefnu og þá húsnæðisstefnu sem rekin var allt frá því að farið var af stað með ekki nægilega vel ígrundaðar hækkanir á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs (Gripið fram í.) árið 2004 og að sú ríkisstjórn reyndist ekki hafa dug (Gripið fram í.) í sér til þess að taka á þeirri innstæðulausu útþenslu á lánum til íbúðarlána sem bankarnir stóðu fyrir þá. (Gripið fram í.) Það var hægt að stemma þá á að ósi en það var ekki gert og við það búa heimilin í dag, (Gripið fram í: Heyrðu …) þ.e. afleiðingar þess.

Við sáum í morgun ákvörðun peningastefnunefndar sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni. Auðvitað vildum við sjá vaxtalækkanir koma til (Gripið fram í.) en á meðan hér er óvissa um grundvallarforsendur í efnahagslífinu og grundvallarefnahagsstærðir hefur maður auðvitað skilning á því að peningastefnunefndin telur varhugavert að ganga lengra en hún hefur ákveðið að gera núna. Þess vegna stendur það upp á þingheim að treysta stoðir efnahagslífsins með því að draga (Forseti hringir.) úr þessari óvissu, ganga frá því samkomulagi sem liggur fyrir í þinginu, Icesave-samkomulaginu, og leggja þannig grunn að efnahagslegum stöðugleika og hraðara vaxtalækkunarferli.