137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

vaxtamál.

[10:37]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að eiga orðastað við hv. þingmann sem var auðvitað eins og við vitum öll ein af helstu klappstýrum hrunsins (Gripið fram í.) og stóð fyrir því með þeirri ríkisstjórn sem þá var við völd að kasta sprekum á þann eld sem leiddi okkur í þessar ógöngur, (Gripið fram í.) hafði ekki aga á útþenslu bankakerfisins, (Gripið fram í.) reyndi ekki að hafa stjórn á útþenslu á íbúðalánamarkaðnum. — Virðulegi forseti, ef ég fengi að hafa hljóð í salnum. Hún reyndi ekki að hafa stjórn á útþenslu bankakerfisins, gerði ekkert til að hafa hömlur á innstæðulausum undirboðum lánastofnana sem leiddu fólk í þær ógöngur að húsnæðisverð hækkaði langt umfram það sem eðlilegt var. Núna erum við öll að kljást við afleiðingar þess.

Ég veit ekki hvað hv. þingmaður vill að gert verði við þær aðstæður, því þegar bóla springur lækkar verð. En það er auðvitað á ábyrgð þeirra sem efndu til hinnar innstæðulausu veislu (Gripið fram í.) að svara fyrir tilurð hennar.