137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

horfur á vinnumarkaði.

[10:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er engin óvissa um efnahagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Hún er skýr, ríkisstjórnin hefur sett fram mjög skýra stefnu um hvernig vinna á á þeim efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum. Við höfum lagt fram … (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Er hægt að fá hljóð í salinn?

Við höfum lagt fram skýra sýn á það hvernig stöðugleika verði náð í efnahagsmálum á næstu árum. Ríkisstjórnin byrjaði þetta sumarþing á því að leggja fram áætlun um ráðstafanir í ríkisfjármálum jafnt fyrir næsta ár og til næstu fjögurra ára.

Það liggur fyrir samkvæmt spám að við höfum ekki séð verstu dýfuna enn hvað atvinnuleysi varðar og búist er við að við getum jafnvel séð frekara atvinnuleysi í haust. Það er alveg rétt að sumarið er tími þar sem framboð starfa eykst, sérstaklega vegna ferðaþjónustunnar. Efnahagsleg óvissa er í dag fyrst og fremst afleiðing þess að við vitum ekki enn hvað verður og við höfum ekki getað sagt skýrt við atvinnulífið að botninum sé náð. Grundvallaratriðið til að við getum farið að treysta grunn efnahagslífsins, að fyrirtækin geti farið að gera áætlun til næstu ára, er að við eyðum þeirri óvissu sem er um frágang þeirra grunnstoða sem við höfum verið að tryggja og þar er það samkomulag sem liggur fyrir Alþingi núna um ríkisábyrgð vegna Icesave-samkomulagsins grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði og það veit hv. þingmaður og það er staðfest af öllum þeim sem um mál fjalla jafnt innan lands sem utan að samþykkt þeirrar ríkisábyrgðar mun greiða fyrir því að okkur takist að styrkja lánshæfismat ríkisins, að okkur takist þar með að treysta grunnstoðir fyrir fjármögnun atvinnulífsins, (Gripið fram í.) aðgang fyrirtækja að erlendum mörkuðum jafnt og aðgang íslenskra fyrirtækja að nauðsynlegri lánsfjárfyrirgreiðslu. Það er grundvallarforsenda (Forseti hringir.) þess að atvinnuleysið versni ekki meira en þegar er spáð.