137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

horfur á vinnumarkaði.

[10:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég skal gjarnan hitta hæstv. ráðherra og lesa fyrir hann leiðara Financial Times ef hann hefur ekki gert það sjálfur en hins vegar spurði ég ekki um þetta. Ég spurði hvaða plön og hvaða áætlanir ráðherrann hefur gert og hvað hann hefur uppi ef hér verður aukning atvinnuleysis. Ef hér verða fleiri hópuppsagnir en áður hefur þekkst, hvað ætlar ráðuneytið að gera? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Er hún búin að athuga það? Er hún búin að kanna það, er hún búin að hringja í þessi stærstu fyrirtæki, segjum þau 200 stærstu? Ég skal hjálpa honum að hringja ef það er málið og spyrja: Hver er staðan, hverjar eru áætlanir ykkar? Búist þið við uppsögnum? Það hlýtur að vera að hlutverk ríkisstjórnarinnar að athuga þessa hluti til að geta brugðist við og hvernig á þá að bregðast við? Á að fjölga fólki sem vinnur hjá Vinnumálastofnun? Á að fjölga enn þá meira hjá Ráðgjafarstofu heimilanna? Hverjar eru áætlanir ríkisstjórnarinnar? Er búið að kanna þetta? Ég held nefnilega að það sé ekki búið að kanna þetta. Ég held að það ríki alger óvissa um hvað tekur við um næstu mánaðamót og þar næstu mánaðamót (Forseti hringir.) vegna þess að ríkisstjórnin hefur ekkert skoðað þessa hluti og er búin að gleyma sér í Evrópusambandsumræðum sem hæstv. ráðherra er mjög áhugasamur um.